Skortsalar að hrella bresku bankana á ný?

Skilti Lloyds TSB Bank og Royal Bank of Scotland blasa …
Skilti Lloyds TSB Bank og Royal Bank of Scotland blasa við í Loughbrough í Englandi en báðir eiga undir högg að sækja. Reuters

Hópur áhrifamikilla þingmanna hefur ritað bréf til fjármálaeftirlitsins breska þar sem lýst er áhyggjum yfir því að í síðustu viku var aflétt banni sem verið hefur þar í landi á skortsölu hlutabréfa fjármálafyrirtækja, og kom þegar fram í mikilli sölu á hlutabréfum bresku bankanna.

John McFall, formaður þeirrar þingnefndar sem vaktar breskt efnahagslíf og fjármálaheiminn, hvetur Hector Sants, forstöðumann breska fjármálaeftirlitsins, að setja bannið á umsvifalaust að nýju sýni það sig að það séu vogunarsjóðir sem beri ábyrgð á miklum sveiflum í bréfum bankanna.

McFall segir að nefndin sem skipuð er fulltrúum alls hins pólitíska litrófs hafi sérstakar áhyggjur af því að heyra að rökstuddur grunur sé um að vogunarsjóðir hafi verið að skortselja hlutbréf bresku bankanna - þ.e. að veðja á í viðskiptum að bréf þeirra muni falla.

„Í ljósi gífurlegs umróts í hlutbréfum bankanna í vikunni frá því banninu var aflétt, gætuð þér vinsamlega staðfesti að Fjármálaeftirlitið fylgist grannt með því hvort samband sé á milli mikilla sveiflna í hlutabréfum banka og afnáms bannsins á skortsölu,“ segir McFall í bréfinu.

„Getur þú sömuleiðis vinsamlega staðfest að þú munir ekki hika við ð setja bannið á ef í ljós kemur að skortsala hefur átt þátt í að grafa undan stöðugleika í bankageiranum,“ bætir hann við.

Þegar banninu á skortsölu var aflétt sl. föstudag af Fjármálaeftirlitinu lýsti það því yfir að það væri „tilbúið að setja bannið á að nýju án fyrirvara ef nauðsyn krefði.“

Bannið var sett á í september sl. til að freista þess að taka á miklum markaðssveiflum sem leiddi til mikillar lækkunar HBOS bankasamstæðunnar, sem var í kjölfarið tekin yfir af Lloyds svo úr varð Lloyds Banking Group PLC.

Hinn nýsameinaði banki hefur mátt þola mikla skelli á hlutabréfamörkuðum frá því banninu var aflétt á föstudag. Royal Bank of Scotland Gropu PLC. hefur þó mátt þola jafnvel meiri hremmingar.

Áhyggjur yfir því að banninu á skortsölu væri aflétt komu fram samdægurs þegar Barclays-bankinn lækkaði um nærri 25% í lok viðskiptadagsins.

Þó að skortsala geti hafa átt stóran þátt í mikilli sölu á bréfum bankanna síðustu daga, þá telja margir að bankarnir séu undir þrýstingi vegna þess að áhyggjur séu yfir stöðu þeirra og möguleikum að einn eða fleiri bankanna verði þjóðnýttir af fullu af ríkisstjórninni. Hún á fyrir 70% í Royal Bank og 50% hlut í Lloyds en hlutina hefur stjórnin tekið gegn því að leggja þeim til fjármagn.

Þingnefndin mun halda fund hinn 27. janúar nk. þar sem fulltrúar vogunarsjóðanna munu koma fyrir nefndina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK