Baugur: Segja fullyrðingar banka rangar

Höfuðstöðvar Baugs á Íslandi
Höfuðstöðvar Baugs á Íslandi Árni Sæberg

Forstjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group segja það rangt hjá fulltrúum Glitnis og Íslandsbanka að halda því fram að stjórnendur Baugs hafi meðvitað blekkt kröfuhafa Baugs Group og lagt fram villandi upplýsingar. Segjast þeir ekki skorast undan því að ræða opinskátt um fjárhagsstöðu og málefni Baugs.„Vegna fréttaflutnings af málflutningi um beiðni Baugs Group hf. um framlengingu greiðslustöðvunar félagsins vilja undirritaðir, Gunnar S. Sigurðsson, forstjóri Baugs Group hf., og Stefán H. Hilmarsson, aðstoðarforstjóri, taka fram eftirfarandi:

Það er beinlínis rangt hjá fulltrúum Glitnis og Íslandsbanka að halda því fram að stjórnendur Baugs hafi meðvitað blekkt kröfuhafa Baugs Group og lagt fram villandi upplýsingar. Með því að bera saman kynningu Baugs á fundi með kröfuhöfum annars vegar og Project Sunrise hins vegar var verið að bera saman epli og appelsínur. Þetta vita stjórnendur og starfsmenn Glitnis og Íslandsbanka en er óvíst hvort lögmenn þeirra hafi áttað sig á því.

Project Sunrise var samstarfsverkefni Baugs Group og Landsbankans sem hófst strax eftir hrun íslensku bankanna í október, sem gekk út á að stofna sjóð með eignum Baugs annars vegar og Landsbankans og Glitnis hins vegar í verslunarrekstri í Bretlandi. Má ætla að verðmæti eigna Baugs Group hafi átt að nema um 28% af heildareignum þessa nýja sjóðs. Þær eignir sem fyrirhugað  var að Landsbankinn legði til sjóðsins voru um 57% af heildareignum hans. Hlutfall Glitnis í sjóðnum átti að nema um 15%. Samtals var áætlað verðmæti eigna í sjóðnum um 985 milljónir sterlingspunda. Fyrirhugað var að stærsta eign sjóðsins átti að vera 77% hlutur í verslunarkeðjunni Iceland Foods, sem Baugur á nú 13,7% hlut í. Áttu arðgreiðslur úr sjóðnum að standa undir endurgreiðslu lána Baugs til allra kröfuhafa á fjögurra til fimm ára tímabili.

Í Héraðsdómi í gær voru lögmenn Glitnis að bera saman fjárhagsstöðu þessa sjóðs,  samkvæmt Project Sunrise, annars vegar, við fjárhagsstöðu  Baugs Group hins vegar. Slíkt er ekki aðeins villandi eða rangt,  heldur einnig meiðandi í garð stjórnenda Baugs. Vandséð er hvaða hvatir liggi að baki slíkum málflutningi fulltrúa bankanna.

Við, eins og aðrir stjórnendur og starfsmenn Baugs, höfum lagt dag við nótt við að bjarga því sem bjargað verður í félaginu eftir hrun íslensks efnahagslífs. Komið hefur fram að búið er að tryggja fjármögnun á rekstri félagsins í greiðslustöðvuninni þannig að eignir þess rýrna ekki á meðan henni stendur. Þá kom fram í Héraðsdómi í gær að verið er að freista þess að bjarga verðmætum sem nema milljörðum króna sem hætt er við að fari í súginn ef félagið verður keyrt í gjaldþrot á þessum tímapunkti. Það er varla hagur íslensks samfélags að enn frekari fjármunum verði kastað á glæ.

Við skorumst ekki undan því að ræða opinskátt fjárhagsstöðu og málefni Baugs Group. Við frábiðjum okkur hins vegar að upplýsingar séu settar fram með þeim hætti sem fulltrúar Glitnis og Íslandsbanka hafa gert í þessu máli, sem getur í raun flokkast sem rógburður. Slíkt þjónar engum uppbyggilegum tilgangi og getur frekar leitt til enn frekari glötunar á verðmætum en þegar er orðið." Undir þetta rita þeir Gunnar S. Sigurðsson og Stefán H. Hilmarsson.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs
Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs mbl.is/
Stefán Hilmarsson
Stefán Hilmarsson Heiðar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK