Niðurstaða í beiðni Baugs í dag

Höfuðstöðvar Baugs á Íslandi
Höfuðstöðvar Baugs á Íslandi Árni Sæberg

Úrskurður í beiðni Baugs Group um áframhaldandi greiðslustöðvun verður birtur í Héraðsdómi Reykjavíkur á hádegi í dag. Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis vilja að Baugur Group fari í þrot og telja hugmyndir félagsins um endurskipulagningu fullkomlega óraunhæfar. Lögmenn bankanna sögðu er beiðnin var tekin fyrir fyrr í vikunni að kröfuhafar Baugs hefðu verið blekktir með villandi upplýsingum um stöðu félagsins.

Í gær sendu forstjóri Baugs, Gunnar Sigurðsson, og aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, Stefán H. Hilmarsson frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hafna staðhæfingum um að þeir hafi blekkt kröfuhafa eða lagt fram villandi upplýsingar. Í kjölfarið sendu bæði Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis  athugasemdir við yfirlýsingu yfirmanna Baugs

Í yfirlýsingu Íslandsbanka segir að sé það vilji forsvarsmanna Baugs að taka af allan vafa um fjárhagsstöðu félagsins sé þeim í lófa lagið að veita almenningi aðgang að gögnum sem lögð voru fyrir héraðsdóm á mánudag.

Ragnar H. Hall, aðstoðarmaður Baugs Group í greiðslustöðvun, sagði fyrir dómi fyrr í vikunni að það væri alveg ótvírætt að staða Íslandsbanka og Glitnis myndi ekki skaðast ef Baugi yrði veitt áframhaldandi greiðslustöðvun.

„Af hverju er sá sem er með veðtryggingar fyrir bróðurparti sinna krafna að mótmæla áframhaldandi greiðslustöðvun,“ sagði Ragnar og vísaði til þess að bæði skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki hefðu veð á bakvið stærstan hluta krafna sinna en aðrir smærri kröfuhafar ekki. Ragnar sagði að Baugi hefðu verið tryggðar tekjur til að standa fyrir útgjöldum. Hann sagði jafnframt að ekkert myndi fást greitt upp í óveðtryggðar kröfur á Baug Group ef félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Andri Árnason, lögmaður skilanefndar Glitnis, sagði að ekkert lægi fyrir um raunhæfar aðgerðir Baugs til að standa í skilum. Fyrirliggjandi gögn bentu til þess að Baugi væri skylt að sækja þegar í stað um gjaldþrotaskipti. Þá væri ljóst að gögn um fjárhagsstöðu Baugs sem kynnt hefðu verið fyrir kröfuhöfum virtust ekki vera í neinu samræmi við þau gögn sem áður hefðu verið kynnt.

„Gögn sem kynnt voru á kröfuhafafundi virðast ekki vera nýjustu upplýsingar um stöðu félagsins,“ sagði Andri. Hann sagði að greiðslustöðvun myndi ekki þjóna neinum lagalegum tilgangi. Glitnir væri stærsti kröfuhafi Baugs og bankinn ætti kröfur á félagið upp á vel á þriðja hundrað milljónir punda.  

Andri benti á að BG Holding og F Capital væru komin í ígildi skiptameðferðar erlendis og því væri verulegur vafi á því að veðsetningarnar í félögunum myndu koma að notum. Fyrirsjáanlegt væri að stór hluti krafna Glitnis væri í reynd óveðtryggður sem þýddi að Glitnir væri stór, ef ekki stærsti, óveðtryggði kröfuhafi félagsins. Synjun frekari greiðslustöðvunar væri því liður í því að verja hagsmuni Glitnis.

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður Íslandsbanka, sagði að bankinn ætti kröfur upp á um 6 milljarða króna á Baug Group. Kröfurnar styddust við tryggingar á 2.-4. veðrétti í BG Holding. Íslandsbanki mæti það svo að það væri verulegum vafa undirorpið að nokkurt fengist upp í kröfur þrátt fyrir veðtryggingar. Ekki væri forsvaranlegt að veita framlengingu á greiðslustöðvun. Rökstuddur grunur væri um það að Baugur hefði vísvitandi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Félaginu væri jafnframt sýnilega skylt að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, mun kveða upp úrskurð um hvort Baugur Group fái áframhaldandi greiðslustöðvun. Ef félagið fær ekki áframhaldandi greiðslustöðvun fer það í gjaldþrotameðferð og skipaður verður skiptastjóri.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK