Tilboðsverðið samþykkt af Fjármálaeftirlitinu

Fyrirtækið BBR ehf., sem er í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, segir að verðið í yfirtökutilboði félagsins á Exista, 0,02 krónur, hafi verið samþykkt af Fjármálaeftirlitinu eftir að óháðir sérfræðingar á vegum FME, endurskoðunarskrifstofa  PriceWaterhouseCoopers, höfðu gert verðmat á hlutabréfunum.

Þetta kemur fram í  yfirlýsingu frá BBR  vegna tilboðs í hluti í Exista hf. Yfirlýsingin er eftirfarandi:
 

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um helgina, einkum í ríkisútvarpinu, um tilboð BBR ehf. til annarra hluthafa í Exista hf. vill BBR að eftirfarandi komi fram:
 
  1. Yfirtökutilboðið er til komið vegna lögboðinnar skyldu BBR til þess að bjóða í hluti annarra hluthafa Exista, í kjölfar þess að eignarhlutur BBR fór yfir 40% í Exista. Öðrum hluthöfum er algerlega í sjálfsvald sett hvort þeir taki tilboðinu eða virði það að vettugi. Með tilboðinu er hluthöfum gefinn kostur á því að velja hvort þeir selji bréf sín eða kjósi að vera áfram hluthafar í Exista.
  2. Það er rangt að yfirtökutilboðið sé fjármagnað með láni frá Lýsingu eins og meðal annars var haldið fram í fréttum RUV. Skýrt kemur fram í tilboðsyfirliti og tilkynningu til Kauphallar að um ábyrgð er að ræða en ekki fjármögnun, enda er kveðið á um í verðbréfaviðskiptalögum að slík ábyrgð skuli vera til staðar þegar greitt er fyrir hluti með reiðufé í yfirtökutilboði. BBR hefur þegar fjármagnað yfirtökutilboðið með reiðufé og ekkert bendir til þess að reyna muni á ábyrgðina.
  3. Verðið í yfirtökutilboðinu er hið sama og BBR greiddi fyrir hluti í Exista í desember síðastliðnum. Tilboðsverðið var samþykkt af Fjármálaeftirlitinu eftir að óháðir sérfræðingar á vegum FME, endurskoðunarskrifstofa  PriceWaterhouseCoopers, höfðu gert verðmat á hlutabréfunum. Tilboðsverðið endurspeglar þá staðreynd að Exista varð fyrir meira fjárhagslegu tjóni en nokkuð annað íslenskt fyrirtæki í bankahruninu í október þegar eign þess í Kaupþingi þurrkaðist út.

 
Að lokum skal það ítrekað að BBR mun hvorki hvetja né letja aðra hluthafa til þess að taka tilboðinu enda er félagið að uppfylla lagalega skyldu með því að gera tilboð til annarra hluthafa. Kostnaður sem af þeirri lagaskyldu hlýst fellur að fullu á BBR ehf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK