200 milljarðar skila sér heim

Kaupþing í Lúxemborg.
Kaupþing í Lúxemborg. Reuters

Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður hafa eignir Kaupþings að andvirði um 200 milljarðar króna endurheimst við sölu dótturfélags og lokun útibúa frá október síðastliðnum og miklum verðmætum hefur verið bjargað með endurskipulagningu eigna, samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings.

Skilanefnd Kaupþings hefur lagt  áherslu á að greiða allar forgangskröfur til sparifjáreigenda. Með endurgreiðslu innistæðna útibúa Kaupþings í Þýskalandi, sem verða greiddar á næstunni, lýkur endurgreiðslu til allra sparifjáreigenda útibúa bankans erlendis  en slíkum greiðslum er þegar lokið í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki.

135 milljarðar heim vegna sölunnar í Svíþjóð

Skilanefnd gekk nýlega frá sölu á hluta af dótturfélagi Kaupþings í Svíþjóð til Ålandsbanken og er skilanefnd sátt við niðurstöðuna. Salan tryggir að öll víkjandi lán bankans til dótturfélagsins fáist greidd að fullu og um helmingur hlutafjár endurheimtist.

Bankinn verður áfram í rekstri og í kjölfar sölunnar mun Kaupþing flytja eignir heim að andvirði um 800 milljónir evra eða um 135 milljarða króna. Ef ekki hefði tekist að ganga frá sölu félagsins er líklegt að félagið hefði farið í þrot og búast hefði mátt við að lítið hefði fengist endurgreitt af víkjandi lánum bankans til félagsins, hlutaféð orðið verðlaust og óvíst hversu mikið af eignum hefðu skilað sér til Íslands, samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings.
 
Í október 2008 var útibú Kaupþings í Noregi sett í greiðslustöðvun og eignir þess kyrrsettar af norskum yfirvöldum. Skilanefnd tókst síðastliðið haust að koma í veg fyrir fyrirhugaða útsölu á eignum félagsins og í febrúar náðist jákvætt samkomulag við slitastjórn útibúsins í Noregi, samkvæmt því sem fram kemur í upplýsingum skilanefndar til lánadrottna.

Vegna samkomulagsins var kyrrsetningu eigna aflétt og stærstur hluti fyrirtækjalánasafnsins fluttur heim. Þannig endurheimti Kaupþing eignir að andvirði um 300 milljónir evra frá útibúinu í Noregi, eða sem samsvarar 50 milljörðum króna.

Í Finnlandi var einnig komið  í veg fyrir að útibúið færi í greiðslustöðvun og hugsanlega brunaútsölu eigna. Gengið hefur verið frá endurgreiðslu allra innistæðna útibúsins og eignum að andvirði 107 milljónir evra eða um 15 milljörðum króna var bjargað.
 
Eignir FIH ekki seldar að svo stöddu

Danski bankinn FIH er enn í eigu Kaupþings og er ekki lengur til sölu og sitja tveir fulltrúar frá skilanefnd Kaupþings í stjórn bankans. Skilanefndin telur að sala félagsins í dag þjóni ekki hagsmunum Kaupþings og líklegt að verðmæti FIH muni aukast í framtíðinni í takt við betri markaðsaðstæður.

Skref til hagræðingar í rekstri hafa verið tekin með lokun þriggja deilda og telja forsvarsmenn FIH að bankinn sé vel fjármagnaður miðað við markaðsaðstæður.

Sjá nánar á vef Kaupþings

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK