Einn sá ríkasti í heimi gjaldþrota

Björgólfur Guðmundsson,
Björgólfur Guðmundsson, Þorkell Þorkelsson

Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, óskaði í gær eftir gjaldþrotaskiptum. Er þetta stærsta einstaklingsgjaldþrot Íslandssögunnar. Skuldir hans og persónuábyrgðir nema 96 milljörðum króna. Fyrir 18 mánuðum nam hrein eign hans 100 milljörðum króna, að því er fram kemur í beiðni um gjaldþrotaskipti til Héraðsdóms Reykjavíkur. Helsta ástæða gjaldþrotsins er að hann gekk í geysiháar ábyrgðir á lánum – sem hann gat engan veginn staðið við þegar fjaraði hratt undan viðskiptaveldi hans í fjármálakreppu.

Næststærsta einstaklingsgjaldþrot Íslandssögunnar blasti við fyrr í sumar þegar bú Magnúsar Þorsteinssonar, fyrrverandi viðskiptafélaga Björgólfs, var tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni Straums fjárfestingabanka sem átti kröfu á hann upp á rúmlega milljarð. Magnús er búsettur í Rússlandi.

Viðskiptaveldi Björgólfs er hrunið: Skilanefndir eru yfir Landsbankanum og Straumi, sem hann átti stóran hlut í. Hlutafé Eimskipafélagsins og Árvakurs var afskrifað en þau voru skuldum hlaðin og varð eign Björgólfs í félögunum því að engu. Hann hefur einnig misst enska knattspyrnufélagið West Ham í hendur lánardrottna. Uppkaupin á téðum fyrirtækjum hófust 2002 við einkavæðingu Landsbankans, hin voru keypt í kjölfarið.

Saga Björgólfs Guðmundssonar minnir um margt á ævi Thors Jensen (1863-1947) kaupsýslumanns og afa eiginkonu Björgólfs, Margrétar Þóru Hallgrímsson. Sonur þeirra, Björgólfur Thor, ber nafn útgerðarmannsins danska, sem fór tvívegis á höfuðið en varð Íslendinga ríkastur þegar best lét.

Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes sagði Björgólf 799. ríkasta mann heims í mars 2007 og mat auð hans á 1,2 milljónir dollara eða 81 milljarð króna að þávirði. Fyrstur Íslendinga til að komast á þennan lista var sonur hans, Björgólfur Thor.

Björgólfur lauk prófi frá Verslunarskólanum 1961, stofnaði Dósagerðina hf. 24 ára og rak hana í tólf ár. Því næst var hann framkvæmdastjóri Hafskipa í átta ár, en skipafélagið fór í gjaldþrot 1985. Hæstiréttur dæmdi í kjölfarið Björgólf til skilorðsbundinnar fangelsisvistar í eitt ár fyrir fjárdrátt, bókhaldsóreiðu og umboðssvik, samkvæmt fréttum.

Drög að endurrisi Björgólfs í viðskiptalífinu voru lögð þegar hann, Björgólfur Thor og Magnús Þorsteinsson stofnuðu bjórverksmiðjuna Bravo International í Rússlandi 1993, sem seld var til Heineken 2002. Þeir keyptu í Pharmaco (síðar Actavis) um aldamótin. Í kjölfarið hófst merkilegur kafli í viðskiptasögunni sem hér með er lokið. Björgólfur er 68 ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka