Fjárhagsstaða West Ham slæm

Fjárhagsstaða enska knattspyrnufélagsins West Ham er afar slæm að því er lesa má út úr ársreikningum félagsins fyrir síðasta ár. Breska blaðið The Guardian hefur eftir Nick Igoe, fjármálastjóra félagsins, að fjármálastefna þess á meðan það var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, hafi verið gölluð í grundvallaratriðum.

The Guardian segir ársreikninginn sýna, að félagið hafi tapað 37,4 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 5,6 milljarða króna, á síðasta ári. Þessu hafi verið mætt með 30,5 milljóna punda framlagi eignarhaldsfélags Björgólfs og 17 milljóna punda láni.  

Þá hafi nettóskuldir og skuldbindingar West Ham verið nálægt 100 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 20 milljarða króna í lok síðasta fjárhagsárs sem náði fram á mitt ár 2008. Félagið hafi ekki enn skilað reikningum fyrir tímabilið til maí 2009 og því sé núverandi staða þess ekki ljós en talið sé að fimm bankar, sem hafa lánað félaginu sameiginlega, hafi hækkað lán sín til þess í 50 milljónir punda.

West Ham hefur gripið til ýmissa sparnaðaraðgerða en þótt sala á leikmönnum umfram kaup á 12 mánaða tímabili til 5. júní sl. hafi numið 11,7 milljónum punda séu vandamál félagsins langt frá því úr sögunni. Erfiðasta vandamálið er félagið hafi brotið gegn ákvæðum lánasamninganna við bankana fimm, sem hefðu þá getað innkallað lánið. 

Það hefði væntanlega leitt til þess að félagið hefði þurft að fara í greiðslustöðvun og gjaldþrotameðferð. Hefur Guardian eftir stjórn félagsins, að það hafi aðeins verið vegna velvilja bankanna að ekki kom til þessa. 

Igoe segir, að rekstrartap og launagreiðslur hafi leitt til þess að félagið braut gegn ákvæðum í lánasamningum á tímabilinu 2007 til 2008. Þótt lánardrottnar félagsins hafi ekki látið reyna á þessi ákvæði sé viðskiptastefna, sem reiði sig á velvilja banka í grundvallaratriðum gölluð.  

Á þessum tíma hafi launagreiðslur félagsins til leikmanna og starfsmanna numið samtals 63,3 milljónum punda af 81,5 milljóna punda veltu, eða nærri 78%. Brugðist hafi verið við þessu með því að selja leikmenn á borð við  Craig Bellamy, Anton Ferdinand, Bobby Zamora og Matthew Etherington.

Það bætti síðan ekki úr skák að ferðaskrifstofan XL, sem var aðalstuðningsaðili liðsins, varð gjaldþrota og það er talið hafa kostað West Ham 4 milljónir punda. Liðið náði einnig sátt við Sheffield United í svonefndu Tévezmáli og mun greiða Sheffield 21 milljón punda í fjórum jöfnum greiðslum til ársins 2013.

Igor segir einnig ljóst, að ýmis leikmannakaup hafi verið misheppnuð. Þannig hafi félagið keypt þrjá þekkta leikmenn á leiktíðinni 2007-2008, Freddie Ljungberg, Craig Bellamy og Kieron Dyer fyrir samtals 20 milljónir punda og greitt þeim 12 milljónir punda í laun. Þessir þrír leikmenn léku samtals í 36 leikjum á leiktíðinni.  

„Þótt þessi kaup hafi verið einkennandi fyrir það óhóf, sem einkenndi stjórnartíð Björgólfs Guðmundssonar voru meiðsli leikmannanna einnig einkennandi fyrir félagið á leiktíðinni og það endaði í miðjum hópi," segir The Guardian.

CB Holding, móðurfélag West Ham, er nú í raun í eigu Straums Burðaráss.   Georg Andersen, forstöðumaður samskiptasviðs Straums Burðaráss, segir að síðan félagið tók yfir rekstur West Ham hafi verið unnið hörðum höndum að því að koma rekstrinum í gott horf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK