Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells, segir alrangt að fulltrúar Coca-Cola fyrirtækisins hafi haft í hótunum við Nýja Kaupþing eins og haldið sé fram af Ríkissjónvarpinu. Segir Þorsteinn að fulltrúar Coca-Cola hafi komið að viðræðum við Nýja Kaupþing og lagt gott eitt til.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þorsteini vegna umfjöllunar um málefni Vífilfells í fréttum Sjónvarpsins og Fréttaukanum í gærkvöldi. Þorsteinn segir einnig rangt að til standi að afskrifa skuldir sem tengjast Vífilfelli eða eignarhaldi á því.
„Síðastliðnar vikur hafa átt sér stað uppbyggilegar viðræður við Nýja Kaupþing sem miða að fullum efndum allra skulda við bankann sem tengjast Vífilfelli og eignarhaldi á því. Rekstur Vífilfells er í góðu horfi sem fyrr, en hrun íslensks efnahagslífs hefur að sjálfsögðu sett sitt mark á félagið og eigenda þess," segir m.a. í tilkynningu Þorsteins.