Stýrivextir lækka í 11%

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans. Verða vextir á sjö daga veðlánum, hinir eiginlegu stýrivextir bankans, lækkaðir úr 12% í 11%.

Þá lækka vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana um 0,5 prósentur í 9%. Hámarksfjárhæð í vikulegum útboðum innstæðubréfa til 28 daga verður aukin úr 25 milljörðum króna í 30 milljarða króna, með 9,5% lágmarksvöxtum og 10,25% hámarksvöxtum. Í því felst 0,25 prósenta hækkun hámarksvaxta. Daglánavextir lækka úr 14,5% í 13%.

Er þetta í takt við væntingar markaðarins hvað varðar stýrivaxtalækkun en flestir greiningaraðilar og sérfræðingar á markaðnum reiknuðu með lækkun upp á 50-100 punkta, eða um 0,5 til 1 prósentu. Vitnað var til yfirlýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að svigrúm hafi skapast til vaxtalækkunar. Eins var tillaga um 50 punkta lækkun naumlega felld á síðasta fundi peningastefnunefndar.

Greiningardeildir bankanna voru hins vegar ekki sammála um hvort innlánsvextir Seðlabankans yrðu lækkaðir. Greining Íslandsbanka spáði lækkun um 0,25 til 0,50 prósentur en Kaupþingsmenn spáðu vöxtunum óbreyttum í 9,5%.

Ritið Peningamál 2009/4 verður birt á vef Seðlabankans klukkan 11 í dag, á sama tíma og rökin fyrir ákvörðun peningastefnunefndar verða kynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK