Össur Skarphéðinsson, utanríkiráðherra, sagði við Ríkisútvarpið að fráleitt væri að halda því fram að hann hafi haft innherjaupplýsingar um stöðu SPRON þegar hann seldi stofnbréf sín í fyrirtækinu fyrir 62 milljónir króna árið 2007.
Þetta gerðist skömmu áður en bréf SPRON voru skráð á markaði og gengi þeirra lækkaði mikið.
Ríkisútvarpið hafði eftir Össuri, að hann hefð eignast bréfin árið 1988 eða 1989 þegar hann var aðstoðarforstjóri í litlu tryggingarfélagi. Bréfin hafi verið eins konar lífeyrissjóður fjölskyldu hans.
Sagðist Össur hafa hagnast um 30 milljónir á sölunni og greitt skatt af ágóðanum. Þegar hann varð ráðherra hafi hann selt hlutina og gengið frá því nokkrum mánuðum síðar. Hann hafi ekki vitað annað en að SPRON stæði vel enda hafi hann aðeins haft upplýsingar úr fjölmiðlum og þær hafi verið frekar jákvæðar.