Raforkuverð ekki lægst á Íslandi

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar

Það er fráleitt að halda því fram að rafmagnsverð sem álverin á Íslandi greiða sé með því lægsta sem þekkist í heiminum. Þetta segir í frétt frá RiotintoAlcan sem rekur álverið í Straumsvík. 

Landsvirkjun birt á ársfundi í dag upplýsingar um raforkuverð. RiotintoAlcan telur að þetta séu gagnlegar upplýsingar og til þess fallnar að stuðla að málefnalegri umræðu um raforkusölu til stóriðju.

Í kynningu Landsvirkjunar kemur fram að verðið frá Landsvirkjun til stóriðju er um 2,5 krónur á kWh en um 3,5 krónur til almenna markaðarins. Í máli forstjóra Landsvirkjunar á þessi munur sér eðlilegar viðskiptalegar skýringar og ætti í raun að vera meiri, með hliðsjón af því m.a. að nýtingarhlutfall stóriðjunnar er um 96% en nýtingarhlutfall á almennum markaði er aðeins 56%.

„Lágt nýtingarhlutfall á almennum markaði þýðir að tæplega helmingur af uppsettu afli fer til spillis, en aflið þarf engu að síður að vera til reiðu til að anna toppum í eftirspurn. Aftur á móti fer nær ekkert af því afli sem sett hefur verið upp fyrir stóriðju til spillis. Munurinn á verði til stóriðju og almenna markaðarins er minni en svo að hann endurspegli þessa staðreynd til fulls.

Auk þess kemur fram að raforkuverð til almennings hefur lækkað mikið að raungildi á undanförnum árum og er mjög lágt í alþjóðlegum samanburði.

Það er því niðurstaða Landsvirkjunar að virkjanir fyrir stóriðju hafi ekki leitt til hærra raforkuverðs til almennings.

Alþjóðlegur samanburður á orkuverði til álvera sýnir að álver á Íslandi greiddu nánast meðalverð árin 2007 og 2008 þegar álverð var hátt. Á öðrum tímum hefur verðið verið mismikið undir heimsmeðaltali en fráleitt með því lægsta sem þekkist í heiminum eins og gjarnan er gefið í skyn.

Orkuverð til álvera í heiminum er mjög breytilegt, allt frá undir 10 mills (Bandaríkjasentum) á kWh upp í yfir 70 mills. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra álvera sem greiða hæst verð er í Kína, eins og meðfylgjandi súlurit ber með sér, en það sýnir magn áls sem framleitt var fyrir tiltekið verðbil á raforku árið 2008. Þess má geta að  hvergi í heiminum, að Kína undanskildu, eru byggð ný álver á grundvelli raforkukaupa yfir heimsmeðaltali. Súluritið sýnir að orkuverð til stóriðju á Íslandi er í samræmi við algengt verð til álvera í heiminum, eða um 25 mills, eins og fram kemur í kynningu Landsvirkjunar sem nálgast má á vef fyrirtækisins,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK