Vinnslustöðin rekin með hagnaði

Vinnslustöðin.
Vinnslustöðin.

Rekstur Vinnslustöðvarinnar skilaði 5,6 milljóna evra hagnaði, jafnvirði um 900 milljóna króna, á árinu 2009. Rekstrartekjur samstæðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum (VSV) námu 56,7 milljónum evra á árinu 2009 og framlegð samstæðunnar nam 11,2 milljónum evra.

Þar sem VSV birtir nú í fyrsta sinn samstæðuuppgjör má til samanburðar geta þess að á árinu 2009 voru rekstrartekjur móðurfélags VSV 49,3 milljónir evra en 63 milljónir evra árið 2008, samkvæmt fréttatilkynningu. Rekstrartekjurnar drógust því saman um 22% og framlegð móðurfélags dróst saman um 26% frá fyrra ári. Helsta skýring tekju- og framlegðarsamdráttar er loðnuveiðibann og lægra afurðaverð á dýrari fisktegundum.

Arður greiddur út í evrum

VSV nýtti sér lagaheimild til að færa reikninga sína í evrum frá og með árinu 2008. Aðalfundur samþykkti nú að skrá hlutafé félagsins í evrum og að í kjölfarið yrði greiddur út 18% arður í evrum. Eigið fé VSV var tæplega 30 milljónir evra í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfall tæp 33%. Ef sömu reikningar félagsins hefðu verið færðir í íslenskum krónum væri eigið fé þess neikvætt um 872 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 8,7%.

„Nær allar tekjur VSV eru í erlendum myntum og skuldir sömuleiðis. Staða og afkoma VSV er því skólabókardæmi sem álitsgjafar og skoðanahönnuðir í opinberri umræðu um skuldastöðu sjávarútvegsins geta velt vöngum yfir og vonandi dregið nokkurn lærdóm af, kæri þeir sig um," segir í tilkynningu frá Vinnslustöðinni.

Vinnslustöðin skuldar 61 milljón evra og hefur ekki skuldað minna í evrum frá árinu 2003. Tekjurnar voru 20 milljónum evra meiri 2009 en 2003. Skuldirnar tvöfölduðust hins vegar í íslenskum krónum við hrunið og á slíka stærð er horft í umræðunni en hún segir augljóslega hverfandi sögu um raunverulega stöðu VSV, segir í tilkynningunni.

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, segir í fréttatilkynningu: „VSV er öflugt félag og rekstur þess gekk vel á árinu 2009, þrátt fyrir áföll á borð við loðnuveiðibann. Ég þakka fyrst og fremst góðu starfsfólki og skilvirku fiskveiðistjórnarkerfi fyrir árangurinn.

Þjóðin þarf vissulega á því að halda að sem flest fyrirtæki gangi vel og sjái fólki fyrir atvinnu og þjóðinni fyrir gjaldeyristekjum. Hins vegar virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekkert hafa lært og engu hafa gleymt. Þeir sveifla áfram fyrningarsvipu sinni yfir sjávarútveginum og það er ógn sem við hljótum að taka mjög alvarlega.

VSV leyfði sér samt þá bjartsýni að kaupa nýlega frystiskipið Gandí, sem gert er út til makrílveiða. Félagið hefur fjárhagslega getu til að ráðast líka í ýmsar framkvæmdir vegna húsa og tækja í landi en við munum ekkert aðhafast í þeim efnum svo lengi sem stjórnvöld hóta okkur fyrningarleiðinni.

Rekstur félagsins þolir einfaldlega ekki að farið verði að fyrna aflaheimildir og ríkisvæða þannig sjávarútveginn í áföngum í samræmi við þennan gæfulausa boðskap úr Stjórnarráði Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK