Fjárbinding ríkisins nemur 190 milljörðum króna

Fjárbinding íslenska ríkisins í þremur stærstu bönkum landsins, Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka, nemur um 190 milljörðum króna. Fjárframlag vegna hlutafjár nemur rúmlega 135 milljörðum króna og tæpum 55 milljörðum króna vegna víkjandi lána.  

Þetta kemur fram í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins. Þar segir að það sé mat stofnunarinnar að ársreikningar bankanna séu ekki vel fallnir til samanburðar þar sem mismunandi aðferðum sé beitt við uppgjör og framsetningu þeirra. Ekki sé hægt að greina afkomu grunnrekstrar nema með töluverðum tilfæringum. Í skýrslu forstjóra kemur fram að það sé æskilegt að reikningar fyrirtækja í skyldri starfsemi séu samanburðarhæfir og gagnsæir.

Tekið er fram í skýrslunni að ljóst sé að umtalsverðrar endurskipulagningar sé þörf hjá bönkunum þremur og í ljósi þess óskaði Bankasýslan eftir því að fá svör við því til hvaða aðgerða hefði verið gripið frá hruni. 

Arðsemi eigin fjár lækkar eftir leiðréttingu

Þá segir að óreglulegir liðir hafi umtalsverð áhrif á rekstrarniðurstöður bankanna þriggja. Það stafi m.a. af endurmati á eignasafni sem flutt hafi verið frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Eftir að leiðrétt hafi verið fyrir óreglulegum liðum lækki arðsemi eigin fjár umtalsvert í tilviki Landsbankans og Arion banka og nokkuð hjá Íslandsbanka.

Fram kemur að bankarnir þrír hafi skilað hagnaði árið 2009 og hafi hagnaður þeirra numið samtals 51 milljarði króna eftir skatt. Íslandsbanki skilaði um 35% arðsemi, Arion banki tæplega 17% og Landsbankinn 10%. 

„Hafa verður í huga að uppgjör bankanna vegna ársins 2009 einkennast mjög af óreglulegum liðum sem stafa af uppgjöri nýju bankanna við þá gömlu. Stór hluti af tekjum bankanna á síðasta ári er vegna endurmats á bókfærðu virði útlána og krafna en eignir voru færðar yfir frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með töluverðum „afslætti“ frá bókfærðu virði. Áhrif endurmats eigna á afkomu voru sérstaklega mikil hjá Landsbankanum (NBI) og Arion banka. Því til viðbótar höfðu breytingar á gengi gjaldmiðla umtalsverð áhrif á afkomu bankanna á árinu 2009. Gjaldeyrissveiflur höfðu jákvæð áhrif á afkomu Arion banka og Íslandsbanka, en neikvæð áhrif á afkomu Landsbankans (NBI). Því má segja að framangreindar arðsemis- og hagnaðartölur gefi ekki glögga mynd af arðsemi bankanna af því sem kalla má reglulegum rekstri eða kjarnastarfsemi,“ segir í skýrslunni.

Lágmarksarðsemiskrafa ríkisins tekur mið af fjármagnskostnaði að viðbættu álagi. Í skýrslunni er umfjöllun um grundvöllinn að baki arðsemiskröfu ríkisins sem hluthafa og kemur fram að eðlileg arðsemiskrafa fyrir banka í blönduðum rekstri geti talist vera rétt rúmlega 15%.

Starfsumhverfi bankanna erfitt

 „Ljóst er að starfsumhverfi bankanna er erfitt. Samdráttur í efnahagslífinu hefur áhrif á tekjuhlið þeirra. Atvinnuvegir eru mikið skuldsettir og óvissa er um fjárfestingar í náinni framtíð. Þá er nokkur óvissa ríkjandi um mikilvæga flokka í útlánasafni bankanna. Það á m.a. við um lánasamninga í erlendum myntum, þar sem lánsfjárhæð var greidd út í íslenskum krónum. Sömuleiðis er um óvissu að ræða um áhrif boðaðrar fyrningarleiðar í sjávarútvegi á lánasafn bankanna í þeirri atvinnugrein.

Mikil vinna er nú unnin innan bankanna við endurskipulagningu útlánasafns. Hvernig til tekst í þeirri vinnu hefur áhrif á hversu hratt mun ganga að byggja upp heilbrigða og öfluga banka sem hafa burði til að miðla fjármagni með sem hagkvæmustum hætti frá sparnaði til fjárfestinga. Mikilvægt er að leita allra leiða til að hagræða í rekstri með það að markmiði að byggja upp skilvirk og arðbær fyrirtæki til lengri tíma litið,“ segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í skýrslunni.

Stofnuninni bera ber lögum samkvæmt að skila árlegri skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni er greint frá starfsemi Bankasýslunnar frá því að til hennar var stofnað síðastliðið haust en eignarhlutir ríkisins í Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka voru formlega færðir Bankasýslunni til umsýslu 4. janúar 2010.

Skýrsla Bankasýslu ríkisins.


Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Árni Sæberg
Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Golli
Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK