Fréttaskýring: Tekist á um örlög Stoða

Nauðasamningar fjárfestingafélagsins Stoða, áður FL Group, voru endanlega samþykktir af Héraðsdómi Reykjavíkur 16. júní 2009. Í sem stystu máli voru 95% skulda félagsins afskrifuð og helstu kröfuhafar eignuðust félagið að fullu.

Þeir sem lýstu kröfum í búið undir einni milljón króna og fengu þær samþykktar fengu sitt greitt að fullu, en þeir sem lýstu hærri kröfum fengu eina milljón króna greidda. Því má leiða líkur að því að meira en 95% skulda félagsins hafi verið afskrifaðar, en heimtur á þeim eignum félagsins sem enn eru fyrir hendi munu leiða endanlegar heimtur í ljós. Í sjöunda kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að áhættuskuldbindingar Stoða og tengdra félaga við fall bankakerfisins í október 2008 hafi verið tæplega 166 milljarðar króna. Sé hins vegar litið til kröfuskrár Stoða, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, eru ágreiningslausar kröfur sem lýst er vegna nauðasamninga 181,3 milljarðar króna, sem glöggir sjá að er umtalsvert hærri upphæð. Miðað við 95% afskrift skulda þurftu kröfuhafar, það er segja NBI, Arion banki og Glitnir, að afskrifa um 172,2 milljarða króna af skuldum félagsins. Athygli vekur að skuldbindingar Stoða voru skildar eftir í gamla Glitni, en færðar yfir í nýju bankana sem reistir voru á grunni Landsbankans og Kaupþings. Þó kemur það líklegast út á eitt, því ólíklegt er að skuldir Stoða verið færðar yfir í nýju bankana á sérlega háu verði.

Nauðasamningar frekar en gjaldþrot

Í kjölfar þess að nauðasamningarnir voru samþykktir af öllum kröfuhöfum heyrðust vangaveltur um hvers vegna félagið fékk að ljúka nauðasamningum í stað þess að fara í hefðbundna gjaldþrotameðferð, í ljósi afleitrar stöðu þess. Fljótt á litið virðist vandséð hvers vegna þetta tiltekna fyrirtæki fengi frekari niðurfellingu skulda en önnur. Stoðir teljast vart lykilfyrirtæki, sem til að mynda hélt uppi atvinnu í litlu byggðarlagi, heldur fjárfestingafélag sem skuldaði miklar fjárhæðir vegna umsvifa á þensluárum. Til dæmis hefur verið bent á að félög sem fara í gegnum nauðasamninga koma síður til skoðunar með tilliti til riftunarreglna gjaldþrotalaga en félög sem eru tekin til gjaldþrotaskipta.

Ráðist í fjögur riftunarmál

Stjórn Stoða, sem skipuð var í kjölfari lúkningar nauðasamninga, ákvað engu að síður að höfða fjögur riftunarmál, en samanlögð fjárhæð þeirra riftunarmála nemur um 30 milljörðum króna samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Mótaðilar þeirra riftunarmála eru í tveimur tilfellum Glitnir – annars vegar vegna sölu á hlutabréfum í House of Fraser til bankans og hins vegar vegna sölu á fyrirtækjunum Eikarhaldi og Fasteignafélagi Íslands. Þessar eignir voru veðsettar Glitni vegna annarra lánveitinga, og söluandvirði þeirra rann til greiðslu skulda FL Group við bankann. Önnur riftunarmál eru vegna sölu á hlut í Alfesca til Teymis, sem greitt var fyrir með víkjandi láni FL til Teymis, en bæði félög lutu stjórn sömu aðila, Baugs og tengdra félaga. Fjórða riftunarmálið var síðan vegna lífeyrisgreiðslna til fyrrverandi starfsmanns FL Group, Örvars Kærnested, upp á samtals 33 milljónir króna. Sú greiðsla var innt af hendi í janúar 2009 vegna áunninna lífeyrisréttinda Örvars á árinu 2007. Í öllum tilfellum voru þessar greiðslur taldar mismuna kröfuhöfum félagsins. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu sem umsjónarmaður með nauðasamningum, Þorsteinn Einarsson, lét endurskoðendafyrirtækið Ernst&Young vinna og Morgunblaðið hefur undir höndum.

Meðal þriggja stærstu kröfuhafa Stoða var NBI, en bankinn hafði veð í hlutabréfum Tryggingamiðstöðvarinnar og drykkjarvöruframleiðandans Refresco. Heimildir Morgunblaðsins herma að vilji NBI hafi staðið til þess að ganga að veðum sínum í eignarhlutum viðkomandi fyrirtækja. Eiríkur Elís Þorláksson, sem hefur setið í stjórn Stoða fyrir Glitni eftir að nauðasamningar félagsins voru staðfestir, segir í samtali við Morgunblaðið að erlendir lánveitendur Refresco, hafi samkvæmt hans upplýsingum haft heimild til að gjaldfella lán þess fyrirtækis, færu Stoðir í gjaldþrot. Í lánasamningum hafi verið ákvæði, sem gerði lánveitendum Refresco heimilt að gjaldfella lán fyrirtækisins yrðu verulegar breytingar á eignarhaldi, þar með talið ef NBI hefði leyst til sín hlutabréfin eða Stoðir farið í þrot. Því hafi verið ákveðið var að fara nauðasamningaleiðina, en verðmæti hlutar Stoða í Refresco var á þeim tíma 53 milljónir evra. Það samsvarar um 8 milljörðum króna á núvirði.

Ásmundur vildi Jón úr forstjórastól

Einn heimildamanna sem Morgunblaðið ræddi við þegar unnið var að þessari frétt benti þó á að hótanir erlendu kröfuhafanna hefðu verið settar fram til þess að öðlast aðild að eignarhlutnum í Refresco sem um ræðir, en kröfuhafar aðrir en NBI, Arion banki og Glitnir eignuðust um 31% í Stoðum í kjölfar nauðsamninga, þrátt fyrir að eiga ekki svo hátt hlutfall af kröfum sem ágreiningur var um, og enn minni hlut í ágreiningslausum kröfum sem lagðar eru til grundvallar nauðasamninga. Heimildir Morgunblaðsins herma að Sigurjón Pálsson, sem sat í stjórn Stoða fyrir hönd Arion banka (þá Nýja-Kaupþings), hafi verið í forsvari fyrir erlendu kröfuhafana sem voru mótfallnir því að setja félagið í gjaldþrot.

Eftir að nauðasamningar Stoða höfðu verið samþykktir sat Jón Sigurðsson áfram sem forstjóri. Ásmundur Stefánsson, þáverandi bankastjóri NBI, er sagður hafa verið mótfallinn áframhaldandi störfum Jóns sem forstjóra, sem lét síðan af störfum eftir að eignir hans voru kyrrsettar um stutt skeið í kjölfar málsóknar slitastjórnar Glitnis á hendur fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis. Áður en Jón hætti sem forstjóri er hann þó sagður hafa gegnt hlutverki við sölu hluta eignar félagsins í Refresco.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK