405 milljónir í sektir

Bónus er hluti af Högum
Bónus er hluti af Högum mbl.is/Golli

Alls voru greiddar 405 milljónir króna í sektir vegna brota Haga, Kjarnafæðis, Kjötbankans, Kjötafurða-stöðvar KS,  Norðlenska, Reykjagarðs og Sláturfélags Suðurlands á samkeppnislögum.

Verðmerkingum umræddra kjötvinnslufyrirtækja fyrir Haga og aðrar smásöluverslanir lýkur í áföngum á næsta ári.

Brutu lög með samstilltum aðgerðum

Lagt er bann við því að verslanir Haga gefi upp afslátt á kjötvörum nema um raunverulega lækkun frá gildandi smásöluverði sé að ræða.

Fyrirtækin brutu lög með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga (svokölluð forverðmerking).

Eftir að fyrirtækjunum var kynnt frumniðurstaða Samkeppniseftirlitsins í málinu sneru þau sér hvert í sínulagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt.

Kjötbankinn greiðir ekki sekt - er gjaldþrota

Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við eftirfarandi fyrirtæki. Í þeim felst m.a. að fyrirtækin viðurkenna brot á 10. gr. samkeppnislaga og greiða sekt vegna þeirra.  Greiða Hagar 270 m.kr. í stjórnvaldssekt. Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarður, en þessi fyrirtæki eru hluti af sömu fyrirtækjasamstæðu, greiða  45 m.kr. samtals í stjórnvaldssekt. Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga greiðir 40 m.kr. í stjórnvaldssekt. Norðlenska greiðir 30 m.kr. í stjórnvaldssekt. Kjarnafæði greiðir 20 m.kr. í stjórnvaldssekt.

12. nóvember sl. var gerð sátt vegna Kjötbankans. Í henni voru viðurkennd brot fyrirtækisins. Forsendur voru hins vegar ekki til álagningar sekta m.a. vegna gjaldþrots Kjötbankans, segir á vef Samkeppniseftirlitsins.

Ekki enn samið við Síld og fisk og Matfugl

Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þáttur þessara fyrirtækja er því enn til rannsóknar. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, tekur aðeins til þeirra fyrirtækja sem gert hafa sátt við eftirlitið.

Tölvupóstar sýna nána samvinnu

„Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er gerð nánari grein fyrir því í hverju framangreind brot Haga og kjötvinnslufyrirtækjanna sex fólust. Ákvæði samkeppnislaga banna framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð).

Tölvupóstar og önnur gögn sýna að annars vegar Bónus og hins vegar kjötvinnslurnar sex (hver fyrir sig) höfðu nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því. Fólst í þessu mun meiri samvinna heldur en einföld samskipti um verðmerkingar á kjöti og unnum kjötvörum. Voru brotin til þess fallin að valda samkeppnislegu tjóni," segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Hagar og umræddir kjötbirgjar hafa skuldbundið sig til að hætta öllum samskiptum um smásöluverð í verslunum Haga. Í þessu felst að starfsmönnum Haga og kjötbirgjanna er óheimilt að eiga samskipti um smásöluverð, afslætti frá smásöluverði og smásöluálagningu. 

Engar kjötvörur formerktar

Frá og með 1. mars 2011 munu Hagar hætta að taka við öllum kjötvörum merktum með smásöluverði og eru staðlaðar, hvað varðar magn, umbúðir og innihald. Er hér t.d. um að ræða flestar tegundir af pylsum, tilbúnum réttum og sumar áleggstegundir. 

Eftir 1. júní 2011 munu verslanir Haga alfarið hætta að taka við öðrum kjötvörum sem merktar eru með smásöluverði. Frá nefndum tímamörkum munu verslanir Haga þannig annast að öllu leyti sjálfar merkingu smásöluverðs á kjötvörum. 

Högum er óheimilt að veita afslætti á kjötvörum nema um raunlækkun sé að ræða frá gildandi smásöluverði. Það er bæði samkeppnishamlandi og villandi gagnvart neytendum að gefa til kynna að vara sé á tilboði (t.d. 10% afslætti) þegar í raun er aðeins verið að selja hana við því verði sem almennt gildir í viðkomandi verslun.

Kjötbirgjunum er veittur sami aðlögunartími og verslunum Haga til að breyta fyrirkomulagi við verðmerkingar á kjöti. Þannig skulu þeir fyrir 1. mars 2011 hætta að merkja staðlaðar vörur með smásöluverði og eftir 1. júní 2011 skulu allar vörur þeirra verða afgreiddar án smásöluverðmerkinga. Gildir þetta gagnvart Högum og öllum öðrum endurseljendum sem eru í viðskiptum við kjötbirgjana. Á þetta einnig við um vörur sem framleiddar eru undir vörumerkjum viðkomandi verslana eða verslanakeðja. 

Kjötbirgjunum er óheimilt að gefa út eða birta leiðbeinandi eða fast smásöluverð á vörum sínum, s.s. með útgáfu á verðlistum, segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK