Peningastefna úr dúr í moll

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson. mbl.is/Ernir

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að nú sé svo komið, að óvissa geti farið að ríkja um það í hvaða átt næstu vaxtabreytingar Seðlabankans verða. Bankinn lækkaði stýrivexti í morgun um 0,25%.

„Þetta er mjúk og lítil lækkun," sagði Már á blaðamannafundi í Seðlabankanum í dag, þar sem fjallað var um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans. „Einhver orðaði það þannig í morgun, að við hefðum skipt peningastefnunni tímabundið úr dúr yfir í moll og það er vegna þess að aðstæður eru að breytast," sagði Már.

Hann sagði, að ekki væri lengur hægt að segja fyrir um það með jafn afgerandi hætti og áður í hvaða átt komi til með fara hér eftir. Ekki væri þó útilokað, að þróunin yrði sú að vextirnir færu eitthvað neðar.

Már sagði, að nokkrir þættir hefðu mælt með því að lækka stýrivexti nú. Meðal annars hefði verðbólga verið lægri að undanförnu en vænst var þótt það skýrðist að hluta af áhrifum breytts fyrirkomulags á því hvernig tekið er á útvarpsgjaldi í mælingum á vísitölu neysluverðs. Það breytti því ekki, að samkvæmt spá Seðlabankans muni verðbólga haldast fyrir neðan verðbólgumarkmið bankans til ársins 2013. 

Þá mælti það einnig með vaxtalækkun, að raunstýrivextir hafi hækkað, vegna lækkandi verðbólgu, og enn er töluverður slaki í hagkerfinu.

Á móti kæmi, að ástæða væri að staldra við nokkra þætti. Þannig hafi gengi krónunnar lækkað frá því peningastefnunefnd kom síðast saman í nóvember. Már sagði, að sú lækkun valdi þó ekki sérstökum áhyggjum eða svefnleysi en þó sé ekki ljóst hvort gengislækkunin stafi af tímabundnum þáttum eða hvort eitthvað meira sé á ferðinni. 

Þá hafi vaxtalækkanir Seðlabankans leitt til þess að áhættuleiðréttur vaxtamunur gagnvart útlöndum hafi minnkað og hann sé nú um 1%. 

Már sagði, að á komandi misserum sé gert ráð fyrir að verðbólgan verði tiltölulega stöðug. Þá skipti máli, að vextir séu í sögulegu lágmarki og komnir inn á það svæði þar sem spurning sé um hvar jafnvægisvextirnir séu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK