Skóævintýri í tollinum

Hugrún Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hafa rekið tískuhönnunarfyrirtækið Kron í tólf ár. Hönnun þeirra hefur verið vel tekið bæði hérlendis sem erlendis en þrátt fyrir það hafa þau oft komið að lokuðum dyrum þegar kemur að samskiptum við hið opinbera. Eru til að mynda samskipti þeirra við íslensk tollyfirvöld ævintýraleg á köflum.

Skapandi greinar veltu 189 milljörðum árið 2009. Útflutningstekjur voru um 24 milljarðar á umræddu ári eða um 3% af útflutningi þjóðarinnar. Ef einungis er horft til fatahönnunar voru útflutningstekjurnar 4 milljarðar króna.

Stuðningsnet vantar

Þrátt fyrir að hönnun og öðrum skapandi greinum hafi verið gert hátt undir höfði eftir hrun hjá íslenskum almenningi er upplifun þeirra Hugrúnar og Magna sú að hið opinbera sýni slíkri starfsemi lítinn skilning og hafi lítinn áhuga á að styðja við slíka starfsemi hér á landi. Þetta þýði að margir gefist hreinlega upp áður en starfsemi þeirra fer að skila arði. Ekki bara fyrir viðkomandi heldur einnig íslenskt þjóðarbú.

Hugrún segir að þau hafi á þeim tólf árum sem liðin eru frá stofnun Kron í þrígang fengið styrk frá hönnunarsjóði Auroru til þess að sækja sýningar úti. Hönnunarsjóður Auroru er ekki fjármagnaður af hinu opinbera heldur einkaframtak.

Þau fara að meðaltali með vörur sínar á sýningar erlendis átta sinnum á ári. Það að taka þátt í sýningum úti kostar lítil fyrirtæki mikið fé og tíma og því væri gott að hafa eitthvert stuðningsnet á bak við sig, segir Hugrún.

Að sögn Magna fer ótrúlegur tími í hluti sem ættu ekki að taka langan tíma og eina baklandið sem íslenskir hönnuðir hafa er Hönnunarmiðstöðin sem hefur ekki mikið bolmagn til þess að veita hönnuðum aðstoð vegna fjárskorts.

Magni nefnir sem dæmi  að þau Hugrún hafi leitað til fjölmargra íslenskra sendiráða eftir aðstoð með misjöfnum árangri. Viðkvæðið sé yfirleitt að bent er á næsta mann eða næstu stofnun. Sem síðan er ekki með nein svör og vísar á þann næsta. Að vísu hafi þau fengið virðisaukaskattsnúmer í Danmörku í gegnum íslenskt sendiráð en það sem verra var – númerið virkaði aldrei.

„Þeir sem geta breytt þessu, það er ráðuneytin, vísa alltaf á Íslandsstofu eða sendiráðin á meðan ákvörðunarvaldið er inni í ráðuneytunum sem virðast ekki hafa mikinn áhuga á að styðja við bakið á litlum fyrirtækjum sem eru að feta sín fyrstu spor í útflutningi.“

Skór eru ekki bara skór

Kron framleiðir bæði skó og fatnað en öll framleiðsla fer fram í útlöndum en hönnunin sjálf hér heima. Skórnir eru framleiddir á Spáni en fatnaðurinn annars staðar í Evrópu og í Asíu.

„Það er ekki hægt að vera með framleiðsluna á Íslandi fyrir fyrirtæki eins og okkar. Það skýrist einkum og sér í lagi af því að tæknin og þekkingin er ekki til staðar á Íslandi og hráefnið kemur allt að utan. Ef við værum ekki með framleiðsluna úti þyrftum við að flytja allt hráefnið hingað og flutningskostnaðurinn er allt of mikill til þess að það gangi upp,“ segir Hugrún og bætir við að ef þau ætluðu að flytja framleiðsluna hingað þyrftu þau einnig að flytja þekkinguna hingað. Þekking sem byggist á fimmtíu ára reynslu líkt og raunin er í skóverksmiðjunni sem vinnur fyrir þau á Spáni.

„Skór eru ekki bara skór heldur er ákveðin verkfræði þar á bak við. Öll þekkjum við það að eiga góða skó og slæma skó og skóverksmiðjan sem starfar fyrir okkur á Spáni byggir á áratuga langri þekkingu,“ segir Hugrún.

„Við erum að vaxa og vaxa en erum samt sem áður ein á báti. Af því við erum íslenskt fyrirtæki fáum við hvergi tryggingar í útlöndum. Eftir hrunið fékk Ísland á sig svartan stimpil og þrátt fyrir að við höfum alltaf staðið í skilum og staðið við allar okkar skuldbindingar  höfum við þurft að staðgreiða allt eftir hrun,“ segir Hugrún. 

Þurfum að hegða okkur eins og banki

Fyrir hrun þurftu þau Hugrún og Magni einungis að greiða brot af vörunni fyrirfram. „Við erum kannski að borga okkar verksmiðjum hálfu ári áður en við afhendum vöruna og fáum greitt. Þetta er eiginlega fyndið: að reka pínulítið fyrirtæki en þurfa að hegða okkur eins og banki,“ segir Magni.

Þau  eru hins vegar sammála um að alltaf sé hægt að finna lausn á vandanum sem blasi við. Það hafi þau gert hingað til og munu gera áfram. „En við viðurkennum alveg að stundum verður manni hugsað til landa eins og Hollands þar sem hönnuðir fá ódýr framleiðslulán til þess að standa við sinn hlut. Það væri ótrúleg hjálp ef slíku kerfi yrði komið á hér á landi,“ segja þau Hugrún og Magni.

Magni segir að fjölmörg fyrirtæki hefji starfsemi en þegar þau komast á ákveðinn punkt gefist þau upp. „Þegar þú ert að stíga þín fyrstu skref í sölu á hönnun þarftu að sanna þig og þú verður að sýna kaupandanum fram á að þú ert engin bóla. Þetta tekur allt tíma auk þess sem þú ert á sama tíma að velja þér þinn stað. Að fara á réttar sýningar og svo mætti lengi telja. Þetta þýðir mikið úthald og að gefast aldrei upp þótt á móti blási,“ segir Magni.

Blint stefnumót breytti öllu

Hugrún kom heim úr tískuhönnunarnámi í París sumarið 2000 og ætlaði sér að stoppa stutt á Íslandi enda var hún á leið í framhaldsnám í Arnheim í Hollandi. En hér er hún enn og má rekja það til þess að hún fór á blint stefnumót við Magna í Bláa lóninu. Daginn eftir voru þau komin í sambúð og þremur mánuðum síðar opnuðu þau fyrstu verslunina.

Magni, sem er menntaður hárgreiðslumaður, rak á þessum tíma hárgreiðslustofuna Rauðhettu og úlfinn en fljótlega varð hönnunin yfirsterkari og nú klippir hann einungis þá sem hafa næga þolinmæði til að bíða lengi eftir því að komast í stólinn hjá honum. Þau hanna allt sjálf sem selt er undir merkjum Kron by Kronkron í útlöndum en hér á Íslandi selja þau einnig fatnað sem um þrjátíu aðrir hönnuðir framleiða í verslun sinni. 

Skólína þeirra kom fyrst á markað hinn 1. október 2008 og aðspurður segir Magni að það hafi ekki verið vond tímasetning þrátt fyrir allt. Skónum var strax vel tekið og pantanir streymdu inn en þau viðurkenna að októbermánuður hafi verið ansi taugatrekkjandi enda íslenska fjármálakerfið rjúkandi rúst.

Viðbrögð Noregs önnur en Íslands

Eitt af því sem hefur valdið Kron erfiðleikum í að koma vöru sinni á markað úti er að Ísland hafi ekki innleitt tilskipun Evrópusambandsins um alþjóðlegt flutningsnúmer sem er ætlað að vernda starfsemi fyrirtækja innan ESB. Noregur, sem er líkt og Ísland innan Evrópska efnahagssvæðisins, hafi strax innleitt reglurnar í norsk lög og því lendi norsk fyrirtæki ekki í neinum erfiðleikum með að afhenda vöru sína úti. 

„Þar sem við erum íslenskt fyrirtæki, sem á þessum tíma var ekki með dreifingarfyrirtæki innan ESB, fengum við ekki tilskilin leyfi til að afhenda vöruna okkar frá Spáni til seljenda. Eftir þrautagöngu milli íslenskra sendiráða og ráðuneyta fengum við danskt virðisaukaskattsnúmer sem átti að bjarga okkur. En því miður var það kannski önnur hver pöntun sem komst á áfangastað á tilskildum tíma. Við þrjóskuðumst við í fjögur ár en gáfumst að lokum upp og stofnuðum dreifingarfyrirtæki í Hollandi sem er skráð fyrir framleiðslunni okkar. Við það breyttist allt. Varan okkar komst á réttum tíma til seljenda og allir sáttir, ekki síst við, því það fór ótrúleg orka í að standa í þessu stappi og reyna að halda okkar viðskiptavinum því þeir sætta sig ekki við að vera sagt að varan komi á ákveðnum degi en þeir þurfi síðan að bíða í tvær vikur með vöruna á hafnarbakkanum. Við erum ekki ein í að hafa gefist upp á samskiptum við stjórnvöld í þessu máli því önnur íslensk hönnunarfyrirtæki sem láta framleiða fyrir sig úti hafa farið sömu leið og við án þess að það sé haft hátt um það,“ segir Hugrún.

55 þúsund króna tollur á 4 þúsund króna sendingu

En það eru fleiri opinberar stofnanir sem hafa gert eigendum Kron lífið leitt. Til að mynda hafa þeim Hugrúnu og Magna oft fallist hendur þegar þau standa í stríði við Tollgæsluna þegar þau fá send sýnishorn af vöru sinni hingað til lands. Sýnishorn sem kannski verða aldrei að framleiðsluvöru eða þá að spurningin snýst um hvort breyta þurfi saumaskapnum og svo mætti lengi telja.

Taka þau sem dæmi þegar þau fengu sýnishorn af þremur skóm á hægri fót á sama tíma og þau voru af greiða toll af sendingum sem áttu svo sannarlega að fara í sölu. Að sjálfsögðu hafi þau greitt toll af slíkum sendingum en segja það ótrúlega pirrandi að þurfa að standa í stappi út af þremur skóm á hægri fót á sama tíma. Sýnishornin eru ekki með neinum verðmiða á enda alls óvíst hvort viðkomandi skór verði að veruleika.

„Að þurfa að greiða 55 þúsund krónur í toll af vöru upp á 32 Bandaríkjadali, 4 þúsund krónur, er algjörlega út í hött og að standa í löngu stappi á sama tíma út af slíkum hlutum tekur á taugarnar,“ segir Magni og bætir við að Kron hafi þurft að greiða fáránlega háar fjárhæðir í gegnum tíðina af slíkum sýnishornum. Oft stoppar sýnishornið stutt á Íslandi því þau taki það með í næstu ferð til útlanda þar sem framtíð sýnishornsins ræðst.

„Við viljum að hönnunarfyrirtæki sem eru í svona flutningi á milli landa, og þau eru alls ekki mörg, fái einhvers konar stimpil á vöru sem er augljóslega eigin hönnun en enn á sýnishornastigi. Síðan þegar viðkomandi vara er orðin að framleiðsluvöru verði hún tolllögð. Að það verði þannig að á meðan varan er á hugmyndastigi og sýnishorn eru send á milli framleiðslufyrirtækisins úti og okkar hér heima þurfi við ekki að greiða tolla af henni,“ segir Hugrún.

Asía helsta markaðssvæðið

Asía er orðin eitt helsta markaðssvæði Kron by Kronkron og er það svæði sem er í mestum vexti. Ekki síst Kína þar sem millistéttin verður sífellt stærri. Þau eru þegar byrjuð að selja hönnun sína í Kína og eru í viðræðum um ný verkefni þar án þess að vilja fara nánar út í þau mál.

Þrátt fyrir efnahagssamdrátt víða í heiminum eru eigendur Kron hvergi bangnir því á samdráttartímum hugsar fólk meira um gæðin en magnið. Því eitt gott skópar getur enst von úr viti á meðan lélegt skópar endist ekki veturinn. Það hafi gerst á Íslandi á haustdögum 2008 þegar íslenska þjóðin fylltist stolti af eigin hönnun og íslensku hugviti. Að sjálfsögðu sé verðmunur á milli hönnunarvöru og fjöldaframleiðslu en munurinn sé samt sem áður ótrúlega lítill á sama tíma og gæðin séu gríðarlega mikil.

Hönnunin seld í 80 verslunum í 35 löndum

Þau segjast leggja mikla áherslu á gæði í sinni framleiðslu. Að vera alltaf með besta fáanlega hráefnið og besta starfsfólkið. Um 40 manns komi að skóframleiðslunni á Spáni og það er allt fólk með langa starfsreynslu og þekkingu á skóm. Sama gildir um fatnaðinn en efnið í hann er framleitt sérstaklega fyrir Kron og saumað á sama stað. Þessi áhersla á gæði hefur skilað árangri og eru vörur þeirra nú seldar í  35 löndum og 80 verslunum.

En þetta kostar mikla vinnu. Fyrstu þrjá mánuði ársins eru þau á ferðalögum um allan heim við að sýna hönnun sína, velja efni fyrir hönnun næsta  árs og kaupa inn fyrir verslanir sínar hér á landi. Síðan tekur við tímabil hönnunar og undirbúnings undir næstu ferðatörn sem hefst í júlí og lýkur í október. Tveir síðustu mánuðir ársins fara svo í að undirbúa vetrartískuna árið á eftir því tískuhönnuðir eru alltaf ekki einu skrefi, heldur er lína næsta árs tilbúin ári fyrirfram.

Á sama tíma og ótrúleg vinna fer í alls konar hluti sem einfalt er að laga hjá hinu opinbera er talað um hönnuði og aðra þá sem vinna við skapandi greinar sem jákvæðan hlut í íslensku þjóðlífi, segja þau Hugrún og Magni. Það fari því óstjórnlega í taugarnar á þeim hvað jákvæðnin er oft bara á yfirborðinu. Fólk sem vinni við skapandi greinar fái klapp á öxlina en á sama tíma er algengt viðkvæði hvers vegna viðkomandi fái sér ekki almennilega vinnu. 

„Hönnun, líkt og aðrar skapandi greinar, byggist á hugsun og ef engin hugsun er á bak við þá verður engin sköpun til og þar af leiðandi engin vara. Engin vara sem hægt er að fara með á markað hérlendis eða í útlöndum og kynna með stolti nema um íslenskt hugvit sé að ræða,“ segja þau Hugrún og Magni sem hafa rekið fyrirtæki sitt í tólf ár og alltaf staðið við skuldbindingar sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK