Spá óbreyttum stýrivöxtum

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans sem er 22. ágúst nk. Verða daglánavextir bankans þá áfram 6,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 5,75%, hámarksvextir á 28 daga innistæðubréfum 5,5% og innlánsvextir 4,75%.

Frá síðustu vaxtaákvörðun bankans í júní hefur verðbólgan hjaðnað talsvert og má búast við að hún verði undir verðbólguspá Seðlabankans fyrir þriðja fjórðung þessa árs. Tvær nýjar verðbólgumælingar hafa verið birtar á tímabilinu og verðbólgan farið úr 5,4% niður í 4,6%. Kjarnaverðbólgan hefur á sama tíma farið úr 5,6% niður í 4,8%, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar sagði að eftir því sem efnahagsbatanum vindur frekar fram og slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, að mati Greiningar Íslandsbanka.

 Frá síðustu vaxtaákvörðun hafa virkir stýrivextir Seðlabankans, farið úr því að vera neikvæðir í að vera jákvæðir. Miðað við skilgreiningu Seðlabankans á virkum stýrivöxtum eru virkir raunstýrivextir nú jákvæðir um 0,4% - 0,5%. Fyrir síðustu vaxtaákvörðun voru þeir hins vegar neikvæðir um 0,4% - 0,5%. Vaxtahækkunin síðast hækkaði þá um 0,25 prósentur og hjöðnun verðbólgunnar sá um afganginn. Fyrir vaxtaákvörðun bankans í maí síðastliðnum voru raunstýrivextirnir neikvæðir um 2%. Miklar breytingar hafa því orðið á stigi peningastefnunnar í sumar og hefur slakinn sem var í upphafi sumars  horfið og aðhald komið í staðinn, segir í Morgunkorninu.

Aukin óvissa og sterkara gengi

 Fram kemur í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar að nefndarmenn hafi haft talsverðar áhyggjur af alþjóðlegum efnahagsmálum. Frá því að sú yfirlýsing var gefin hefur ástand og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum fremur versnað, segir í Morgunkorninu. Hefur þetta neikvæð áhrif á hagvaxtarhorfur hér á landi og dregur úr þörf á frekara aðhaldi í peningamálum í bráð.

Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur gengi krónunnar styrkst um ríflega 8,7% sem verður að teljast umtalsvert. Hafa verðbólguhorfur batnað talsvert vegna þessa. Síðasta verðbólguspá Seðlabankans var birt samhliða vaxtaákvörðuninni í maí. Spáði bankinn því þá að verðbólgan yrði 6,1% á öðrum fjórðungi þessa árs og 5,7% á þriðja ársfjórðungi. Nú er ljóst að verðbólgan á öðrum fjórðungi var öllu minni en bankinn spáði, eða um 5,8% sem er 0,3 prósentustigum undir spá Seðlabankans. Verðbólgan er nú 4,6% og er því afar líklegt að hún verði talsvert undir spá bankans fyrir þriðja fjórðung.

Litið fram í tímann þá var það spá bankans að verðbólgan yrði 3,9% yfir næsta ár og að 2,5% verðbólgumarkmiði bankans yrði ekki náð fyrr en í upphafi árs 2015. Miðað við undangreint má búast við að verðbólguspá bankans sem birt verður  samhliða vaxtaákvörðuninni í næstu viku verði umtalsvert bjartsýnni en spá bankans frá því í maí. Mun það ráða talsverðu um ákvörðun peningastefnunefndar um að halda vöxtum óbreyttum nú, segir í Morgunkorninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK