Verðbólga minnkar hraðar en spáð var

Neytendur geta átt von á lægri heimilsreikningum samfara minnkandi verðbólgu
Neytendur geta átt von á lægri heimilsreikningum samfara minnkandi verðbólgu mynd/mbl.is

Gert er ráð fyrir að verðbólga verði um 4½% á síðasta fjórðungi þessa árs en um 3½% á síðasta fjórðungi næsta árs. Samkvæmt nýrri spá Seðlabanka Íslands verður verðbólga við markmið á fyrri hluta ársins 2014, sem er um hálfu ári fyrr en reiknað var með í ágúst þegar Peningamál Seðlabanka Íslands komu síðast út.

Verðbólga mældist 4,3% á þriðja ársfjórðungi 2012, sem er 0,4 prósentum minni verðbólga en spáð var í ágúst. Horfur eru einnig á að verðbólga verði minni á síðasta fjórðungi ársins.

Frá fyrsta fjórðungi næsta árs eru horfurnar hins vegar svipaðar og í ágústspánni og vegast þar á áhrif hagstæðari upphafsstöðu við spágerðina og meiri slaki í þjóðarbúinu annars vegar og áhrif lægra gengis krónunnar og meiri hækkun óbeinna skatta í byrjun næsta árs hins vegar.

Vísbendingar um undirliggjandi verðbólgu benda einnig til þess að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi minnkað. Hins vegar gefa mælikvarðar á verðbólguvæntingar til kynna að langtímaverðbólguvæntingar séu áfram háar og hafi lítið lækkað á þessu ári. Eftir tímabundna aukningu verðbólgu á síðasta fjórðungi þessa árs er þó búist við að verðbólga haldi áfram að hjaðna, segir í Peningamálum sem komu út í dag.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni í dag: „Verðbólguspá Seðlabankans hljóðar upp á 3,6% verðbólgu að meðaltali á næsta ári, og 2,7% verðbólgu að jafnaði árið 2014. Er bankinn þar talsvert bjartsýnni en við þegar litið er lengra fram á veg. Þannig  reiknar Seðlabankinn með því að verðbólgumarkmiðinu verði náð á þriðja ársfjórðungi 2014 en við spáum því að verðbólgan verði þá um 4%. Seðlabankinn reiknar því með að minni slaki í peningastjórnuninni, þ.e. hækkun virkra raunstýrivaxta, eigi sér stað með hjöðnun verðbólgunnar á spátímabilinu og að sú breyting á aðhaldsstigi peningastefnunnar sé nægjanleg þannig að ekki þurfi að koma til frekari hækkanir á nafnstýrivöxtum. Við reiknum hins vegar með því að verðbólgan muni ekki minnka með þeim hætti sem Seðlabankinn spáir þegar fram í sækir, og því muni hann finna sig knúinn til að hækka nafnstýrivexti sína nokkru meira bæði á næsta og þarnæsta ári.

Verðbólgu vanspáð undanfarinn áratug
Í því ljósi er raunar athyglisvert að rýna í greiningu Seðlabankans sjálfs á verðbólguspám sínum undanfarin ár, sem birt var í Peningamálum í dag. Niðurstöður þeirrar greiningar eru meðal annars að frá árinu 2001, þ.e. frá upptöku verðbólgumarkmiðsins, hafi verðbólgu eftir fjóra ársfjórðunga að meðaltali verið vanspáð um 1,7% og verðbólgu eftir átta ársfjórðunga verið vanspáð um 2,9%. Einnig kemur þar fram að bæði spáskekkja og staðafrávik spár fjóra ársfjórðunga fram í tímann hefur aukist eftir upptöku verðbólgumarkmiðs. Skýringuna segir bankinn liggja að miklu leyti í gengissveiflum krónu. Við höfum áður bent á að sú forsenda í spágerð bankans að festa gengi krónu nálægt stundargengi á spádegi sé ekki til þess fallin að auka trúverðugleika verðbólguspáa hans, og styrkja þessar niðurstöður þá skoðun okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK