Segir efnahagslífið leiðinlegt hérlendis

Lars Christensen, forstöðumaður hjá greiningardeild Danske Bank, á fundi VÍB …
Lars Christensen, forstöðumaður hjá greiningardeild Danske Bank, á fundi VÍB í morgun. Styrmir Kári Erwinsson

„Ég er nokkuð bjartsýnn núna þó við spáum ekki miklum hagvexti, en hann er þó hærri en hjá flestum öðrum ríkjum, eins og Danmörku sem er í stöðnun.“ Þetta sagði Lars Christensen, forstöðumaður hjá greiningardeild Danske Bank, þegar hann kynnti nýja greiningu bankans á Íslandi á fundi hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka í morgun. „Ísland er ekki að springa út, en er á góðum batavegi þar sem atvinnuleysi heldur áfram að lækka rólega“.

„Leiðinlegt efnahagslíf“

Christensen er hvað þekktastur hérlendis fyrir að hafa varað við stöðu íslenska markaðarins strax árið 2006. Miklar umræður spunnust í kringum það og var hann jafnvel sakaður um að vera að ráðast á Ísland. Hann segir að ástandið í dag sé mun heilsusamlegra en þá. Það séu þó enn vandamál til staðar hérlendis, til dæmis gjaldeyrishengjan, fjármagnshöftin og lágt fjárfestingarstig. 

„Þið eruð með leiðinlegt efnahagslíf sem stendur sig nokkuð vel“ sagði Christensen þegar hann lýsti ástandinu í dag, en í nýju skýrslunni er því spáð að hagvöxtur verði á bilinu 2,2 til 2,9% á næstu þremur árum. Sagði hann að það liti út fyrir að hagvöxtur verði mestur á Íslandi af norðurlöndunum á næsta ári. Það sé þó ekki vegna gífurlegs árangurs hér, heldur slæmrar stöðu erlendis.

Horfa til atvinnuþátttökunnar í stað atvinnuleysis

Nokkur munur er á stöðu atvinnuleysis nú og því sem var spáð þegar hann kom árið 2011. Christensen sagði þá að Íslendingar mættu búa sig undir að venjast háu atvinnuleysisstigi, í kringum 8 til 9%. Í dag er staðan hins vegar sú að atvinnuleysi er í kringum 5%. Í viðtali við mbl.is sagði hann að stór þáttur í þessu væri að mikið af fólki hefði farið af vinnumarkaðinum hérlendis, bæði fólk sem hefði flutt erlendis og svo þeir sem hefðu hætt. 

„Það er nauðsynlegt að horfa á atvinnuþátttöku frekar en atvinnuleysi“ segir hann og bendir á að það þurfi að horfa á hvað hafi gerst með vinnuaflið. „Á síðustu árum sjáum við að lækkun atvinnuleysis hefur að miklu leiti stafað af því að fólk flytjist í burtu eða hættir að vinna.“Aðspurður hvort hann sjái fram á breytingar á þessu sviði telur hann að fljótlega muni Íslendingar hætta að sjá svona mikinn brottflutning. Aftur á móti vill hann ekkert segja til um hvort viðsnúningur verði og vinnuafl fari aftur að flytja til Íslands.

Efnisorð: Lars Christensen
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka