Nýjar aðferðir sem falla að tíðarandanum

Ragna Árnadóttir er formaður þverpólitísks og þverfaglegs samstarfsvettvangs sem kynntur …
Ragna Árnadóttir er formaður þverpólitísks og þverfaglegs samstarfsvettvangs sem kynntur var í dag.

„Þetta er mjög áhugavert tækifæri til að horfa til framtíðar og móta langtímastefnu að aukinni hagsæld fyrir Ísland,“ segir Ragna Árnadóttir, en hún er formaður þverpólitísks og þverfaglegs samstarfsvettvangs sem kynntur var í dag. 

Ragna segir að fyrsta skrefið sé að hópurinn hittist í Hörpu þann 11. febrúar. Þar verði fyrsta umræða tekin um þau efni sem verði rædd áfram. Segir hún ekki tímabært að segja til um hver þau séu nákvæmlega núna, þar sem vinnan er rétt að hefjast. Hún segir þó ákveðinn grundvöll í skýrslu McKinsey, sem var óformlegt upphaf að stofnun hópsins.

Mismunandi skoðanir munu væntanlega koma upp hjá hópnum, þar sem aðilar frá öllum hlutum atvinnulífs, stjórnkerfis og háskólasamfélags munu koma saman. Aðspurð hvernig hún sjái þennan breiða hóp ná saman segist Ragna ætla að leyfa sér að vera mjög bjartsýn. „Það hafa verið mjög góð viðbrögð við að taka þátt í þessum samráðsvettvangi þannig að ég ætla að leyfa mér að vera mjög bjartsýn á að þetta leiði til einhvers góðs og gefi af sér einhvern ávöxt.“

Segir hún ákjósanlegt að hægt sé að skilgreina og skapa skilyrði fyrir ákvörðunartöku, en tekur þó fram að samráðsvettvangurinn taki engar ákvarðanir. Hann sé eingöngu umræðuvettvangur til að leggja áherslu á ákveðin málefni sem séu til þess fallin að vera gagnleg til að móta langtímastefnu að hagsæld.

„Þegar til kastanna kemur þá eru það ekki síst stjórnmálamennirnir sem skipta máli varðandi ákvarðanatöku sem er okkur til góðs. Ég lít á þennan vettvang sem eitthvað nýtt þar sem nýjar aðferðir eru prófaðar sem falla vel að tíðarandanum og því sem Íslendingar vænta af hagsmunaaðilum hér á landi,“ segir Ragna.

Ragna starfar í dag sem aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Aðspurð hvort hún muni taka sér hlé frá þeim störfum meðan unnið sé að þessu verkefni segir Ragna að hún muni vinna að þessu verkefni meðfram starfinu hjá Landsvirkjun og bætir við í gamansömum tón að það sé nokkurn veginn á pari við það sem hafi verið gagnrýnt varðandi of langan vinnudag hjá Íslendingum.

Efnisorð: Ragna Árnadóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka