Margrét fær viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu

Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, hlaut verðlaun Félags kvenna í atvinnurekstri …
Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, hlaut verðlaun Félags kvenna í atvinnurekstri í ár. Heiðar Kristjánsson

Viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu í ár hlaut Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma. Þetta var tilkynnt í athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Margrét hefur komið víða við í atvinnulífinu, bæði hér heima og erlendis. Auk þess að stýra Icepharma er hún stjórnarformaður N1 og formaður Félags atvinnurekenda. Þá er hún í stjórn evrópskra samtaka fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum, ESTA. Áður var Margrét forstjóri Austurbakka, framkvæmdastjóri hjá bæði Skeljungi og olíufélagsins Q8 í Danmörku, 9 ár á hvorum stað.

Hún segir í samtali við mbl.is að miklar breytingar hafi orðið hér á landi á síðustu árum og tækifæri kvenna séu mun meiri en áður. „Mér finnst á þessum ferli mínum, sem spannar yfir 30 ár, í atvinnulífinu hafa orðið gríðarlega mikil breyting hér heima á síðustu fjórum til fimm árum. Konur eru að koma miklu sterkari inn og fá miklu fleiri tækifæri. Ég held að þessi löggjöf sem kemur núna í september um konur í stjórn, hún hefur ýtt við mörgum að horfa út fyrir þægindahringinn við að leita að aðilum til að taka þátt í stjórnarstörfum.“

Þá telur hún að viss gildi sem almennt standi konum nær hafi náð meiri fótfestu í atvinnulífinu og að það sé jákvætt. „Eftir hrunið hefur verið leitað að öðrum gildum varðandi stjórnun. Konur hafa verið áhættufælnari en karlar og það er eitt af því sem fólk vildi á þeim tíma, ekki hámarksáhætta. Fólk vildi heldur meira öryggi, traust og virðingu, sem er kannski það sem konur hafa oft staðið meira fyrir.“

Þegar Margrét er spurð út í mikilvægustu hæfileika stjórnenda í dag segir hún að það sem skipti mestu máli sé virðing. „Mér finnst grundvallaratriðið vera að bera virðingu gagnvart því fólki sem maður vinnur með og er í samskiptum við.“ Segir hún að þannig nái fólk almennt lengst áfram

Þá segir hún nauðsynlegt að Íslendingar fari í auknum mæli að horfa til samkeppnishæfni þjóðarinnar.  „Við erum svolítið búin að gleyma okkur í innri hnappaskoðun undanfarin 4 ár og nú þurfum við að leggja það á bakvið okkur og taka þátt í alþjóðasamfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK