Vinna að 300 megavatta virkjun í Eþíópíu

Þorleifur Finnsson hjá Reykjavík Geothermal
Þorleifur Finnsson hjá Reykjavík Geothermal Þorsteinn Ásgrímsson

Íslenska jarðhitaþróunarfélagið Reykjavík Geothermal vinnur þessa dagana að því að klára samningaviðræður við eþíópísk stjórnvöld varðandi uppbyggingu á jarðhitavirkjun á Corbetti-svæðinu, um 230 kílómetra suður af höfuðborg landsins. Þorleifur Finnsson hjá Reykjavík Geothermal segir að vonast sé eftir því að framkvæmdir hefjist fyrir árslok, en horft er til þess að reisa 300 megavatta jarðvarmavirkjun í fyrstu, þótt svæðið búi yfir frekari tækifærum.

„Við höfum gert allar forrannsóknir og það er allt fjármagnað af Reykjavík Geothermal. Núna erum við í síðasta fasa þess að semja um verkefnið við ríkisstjórnina og ríkisraforkufyrirtækið um að kaupa orkuna,“ segir Þorleifur.

Möguleikar fyrir íslensk verkfræðifyrirtæki

Þegar samningar hafa náðst er næsta skref að fara í útboð og hefjast handa við boranir. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að íslensk verkfræðiþekking muni nýtast nánar við þessa uppbyggingu segir hann góða möguleika á því. „Við munum þurfa á mikilli verkfræðiþekkingu að halda og munum ráða til þess verkfræðistofur sem hafa sérþekkingu á jarðhita og þar koma íslenskar verkfræðistofur mjög vel til greina.“

Hann segir hópinn sem hefur sérþekkingu á þessum málum ekki mjög stóran og að íslenskir aðilar séu framarlega í greininni.

Væntanlegt útboð í maí og framkvæmdir í lok árs

Þar sem samningaviðræður við ríkisstjórn Eþíópíu eiga sér enn stað er erfitt að segja til um hvenær framkvæmdir geta hafist, en Þorleifur segir að ef áætlanir gangi eftir vonist Reykjavík Geothermal til þess að boranir hefjist seint á þessu ári. Það þýðir að útboð myndi ekki fara fram miklu seinna en í maí.

Verkefnið er mjög fjárfrekt og því segir hann að nauðsynlegt hafi verið að finna alþjóðlega fjárfesta og það hafi gengið eftir. „Við erum komnir í samstarf við bandarískt orkuþróunarfyrirtæki, en þeir munu koma inn með stærstan hluta af eigin fé verkefnisins og stýra því að fjármagna það þannig að alþjóðlegir bankar komi inn í verkefnið.“

Stærra en Hellisheiði og Nesjavellir til samans

Reykjavík Geothermal mun eftir sem áður eiga á milli 10 og 30% í verkefninu. Þetta er þó ekki eina tækifærið á svæðinu, því Þorleifur segir að ef horft er á allt Corbetti-svæðið gæti það orðið aflmeira en Hellisheiðarvirkjun og Nesjavellir til samans. 

„Fyrirtækið er þróunarfélag og stefnir að því að halda áfram að þróa næsta svæði þegar þessu lýkur, eða samhliða verkefninu,“ segir Þorleifur, en fyrirtækið er einnig komið í samstarf við mexíkóska aðila varðandi þróun á jarðhitasvæði þarlendis. Þá er verið að skoða möguleika í Karabíska hafinu og fá leyfi til að rannsaka svæði í Papúa Nýju-Gíneu, sem talið er mjög gjöfult.

Í dag starfa 25 hjá fyrirtækinu, en þegar ráðgjafar eru taldir með segir Þorleifur að yfir 30 Íslendingar hafi komið að þessu verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK