Óraunhæfar siglingar um norðurleiðina

Per Jessing, sérfræðingur í skipaflutningum.
Per Jessing, sérfræðingur í skipaflutningum.

Litlar líkur eru á því að siglingar um norðurleiðina milli Asíu og Evrópu verði stór hluti af flutningum milli álfanna á næstu áratugunum. Lítið er um hafnir og stoðkerfi, skip sem geta siglt á svæðinu eru fá og gömul og tíma- og kostnaðarsparnaður er minni en látið er af. Þetta er meðal þess sem Per Jessing, sérfræðingur í skipaflutningum sagði á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á Hótel Sögu í dag. 

Sagði Jessing að fjölmargar ástæður væru fyrir því að draga yrði í efa möguleika norðurleiðarinnar til að taka við sem stór flutningaleið á vörum yfir hafið. Meðal þeirra væri að þótt að um allt að helmings styttingu á siglingaleið væri að ræða, þá væri tímasparnaðurinn mun minni, enda færu skip hægar um norðurskautshöf þar sem hætta væri á ísjökum. Auk þess væri skyggni almennt lítið sem ekkert á þessum slóðum. 

Þá benti hann á að aðeins lítill hluti þeirra skipa sem nú eru í notkun við stóra fraktflutninga séu nógu sterklega byggð til að geta siglt þessa leið. Segir hann að öll stærstu skipin séu ekki hönnuð fyrir þessar aðstæður og því gætu þau ekki nýtt sér norðurleiðina með hlýnandi loftslagi og bráðnandi íshellu.

Aldur skipanna er einnig áhyggjuefni, en aðeins örfá flutningaskip sem teljast nægjanlega sterk fyrir þessa siglingaleið eru yngri en 15 ára. Kaldar aðstæður og margskonar vandamál í erfiðu umhverfi gera það einnig að verkum að ekki eru margir einstaklingar sem geti talist hæfir á þessari siglingaleið. Segir Jessing að aðeins um 2000 skipverjar teljist í dag hæfir í verkefnið.

Fjöldi annarra ástæðna liggur að baki þessarar skoðunar Jessing, en hann segir að mengunarreglur í Kanada, lítill áreiðanleiki, erfiðar tímaáætlanir og mikill kostnaður við að halda stöðugleika muni verða til þess að norðurleiðin verði ekki á næstu áratugum vinsæl siglingaleið. Þá séu einnig hafnir og stoðkerfi léleg á leiðinni og oft gæti verið þörf á aðstoð ísbrjóta.

Nokkuð hefur verið rætt um þessa opnun norðurleiðarinnar hér á landi, en bent hefur verið á möguleika á umskipunarhöfn hér á landi og auknum tekjum vegna komu stórra flutningaskipa. Samkvæmt greiningu Jessing er slíkt ólíklegt á næstu áratugum.

Bráðnun á norðurheimskautinu hefur opnað möguleika fyrir siglingar milli Evrópu …
Bráðnun á norðurheimskautinu hefur opnað möguleika fyrir siglingar milli Evrópu og Asíu. Einar Falur Ingólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK