Eigendur flugvallarins í Shenzhen í Kína og fjárfestingafyrirtæki í Hong Kong hafa lýst yfir áhuga sínum á því að festa kaup á alþjóðaflugvellinum í Aþenu höfuðborg Grikklands. Þetta kemur fram á fréttavefnum Euobserver.com í dag og vísað í upplýsingar frá gríska fjármálaráðuneytinu.
Fram kemur í fréttinni að kínversku fjárfestarnir hafi sömuleiðis áhuga á að eignast 37 minni flugvelli í Grikklandi en einkavæðing ríkiseigna er eitt af því sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) setja sem skilyrði fyrir áframhaldandi efnahagsaðstoð við landið.