Óþægilega nálægt samdrætti

Greiningardeild Arion banka segir að koma þurfi til fjárfestinga eigi …
Greiningardeild Arion banka segir að koma þurfi til fjárfestinga eigi hagkerfið ekki að detta niður í samdrátt. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Þegar staða íslenska hagkerfisins er skoðuð í svokölluðu iðuriti kemur í ljós að það er óþægilega nálægt samdrætti. Greiningardeild Arion banka notar greiningaraðferðina í nýjustu markaðspunktum sínum, en þar sést að hagkerfið er nú í hægagangi.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd fór hagkerfið á fyrsta hluta ársins úr vaxtarskeiði niður í hægagang, en auk þessara tveggja flokka sýnir iðurit einnig samdráttarskeið og bata.

Segir greiningardeildin að þegar áhrif hagsveiflunnar, sem hófst með falli íslensku bankanna árið 2008, á landsframleiðslu séu teiknuð upp á iðurit komi í ljós nokkuð hefðbundið mynstur, þar sem landsframleiðslan færist kassa úr kassa í hringlaga hreyfingu umhverfis miðju myndarinnar.

Gætum stefnt í samdrátt

Gaf þetta meðal annars góða vísbendingu um að hagkerfið væri að stefna í hægagang strax í lok árs 2011, sem reyndist svo einmitt raunin á árinu 2012. Sé horft til þróunar breytanna síðustu fjóra áratugi hefur færsla úr hægagangskassanum átt sér stað yfir í vaxtarkassann í tæplega 75% tilvika, en í samdráttarkassann í 25% tilvika.

Hafsteinn Hafsteinsson, sérfræðingur hjá greiningardeildinni, segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir líkur á því að hagkerfið fari í samdrátt, þá sé ekki nógu skýrt í hvaða átt breytan sé að fara, en það megi þó segja að Ísland sé þessa stundina óþægilega nálægt samdrættinum. Hann segir að mestu skipti í þessu samhengi hvort fjárfestingar fari í gang eða ekki, en slíkt gæti skotið okkur aftur upp í vaxtarskeið í stað samdráttar.

Húsnæðisverðið sleikir mörkin milli jákvæðs og neikvæðs vaxtar

Með þessari aðferð má einnig skoða fleiri breytur en hagkerfið í heild. Meðal annars skoðar greiningardeildin húsnæðisverð, en sé raunverð húsnæðis sett upp í iðurit birtist svipuð mynd og af hagkerfinu.

Þar sést þróun breytunnar síðan húsnæðisverð tók að falla á fyrri hluta árs 2008 og fram í mars 2013, en eftir sæmilegan hækkunarsprett á árinu 2011 og frameftir ári 2012 virðist húsnæðismarkaðurinn nú einnig kominn í hægagang í takt við hagkerfið.

Heildarstefnan undanfarna mánuði virðist, að sögn greiningarinnar, frekar vera í átt að samdráttarkassanum, en iðuritið hefur sleikt mörkin milli neikvæðs og jákvæðs vaxtar á árinu. Hvort breytan fer yfir mörkin og húsnæðisverð tekur að lækka að raunvirði ræðst af því hvort hagkerfið tekur við sér.

Íslenska haghringiðan. Bleiki liturinn er fyrsti ársfjórðungur 2012.
Íslenska haghringiðan. Bleiki liturinn er fyrsti ársfjórðungur 2012.
Húsnæðishringiðan. Sjá má að iðuritið hefur sleikt mörkin milli neikvæðs …
Húsnæðishringiðan. Sjá má að iðuritið hefur sleikt mörkin milli neikvæðs og jákvæðs vaxtar á árinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK