Hausaveiðar í íslensku atvinnulífi

Katrín S. Óladóttir, eigandi og framkvæmdarstjóri Hagvangs.
Katrín S. Óladóttir, eigandi og framkvæmdarstjóri Hagvangs.

Þrátt fyrir að orðið hausaveiðar hljómi ofbeldisfullt og framandi og margir telji það ekki eiga við um íslenskan raunveruleika, þá er það staðreynd að hausaveiðar eiga sér stað á hverjum degi í íslensku atvinnulífi. Reyndar er ofbeldi þar víðsfjarri og helstu vopnin eru sími og tölvupóstur. Í samtali við mbl.is segir Katrín S. Óladóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Hagvangs, frá því hvernig farið er að því að nálgast stóru nöfnin og eftirsóttasta starfsfólkið í íslensku atvinnulífi.

Hausaveiðar (e. headhunting) er sú aðferð sem notuð er þegar atvinnurekendur leita að fólki sem er ekki endilega virkt í atvinnuleit heldur er nú þegar í spennandi starfi. Oft á tíðum er ekki auglýst eftir störfum heldur er leitað til ráðgjafafyrirtækja sem eru beðin um að finna hæfasta einstaklinginn.

Í góðum störfum en tilbúin fyrir hreyfingu

Katrín segir að þessi aðferð sé meðal annars notuð af stjórnum fyrirtækja þegar verið er að leita að nýjum framkvæmdastjórum. Segir hún Hagvang fylgjast vel með vinnumarkaðinum og geti einnig leitað í lista hjá sér þar sem fólk hafi látið vita af sér. „Þetta er fólk sem hefur samband og óskar eftir því í fullum trúnaði að ef það skapist tækifæri á þeirra markaði, þá hafi það mögulegan áhuga á að hreyfa sig. En þetta fólk er ekki að svara atvinnuauglýsingum eða gefa sig upp að öðru leyti,“ segir Katrín.

„Svo eru það þeir sem eru í störfum og hafa skilað góðum árangri. Þá höfum við samband við það fólk að fyrra bragði til að kanna hvort það vilji eitthvað hreyfa sig og skoða tækifæri sem við erum með,“ segir Katrín, en aðferðin er aðallega notuð við leit að stjórnendum.

Aðeins auglýst í 30% tilfella

Aðspurð um hversu stór hluti af ráðningum Hagvangs fari í gegnum hausaveiðar segir Katrín að ekki sé hægt að gefa upp nákvæma tölu um það. Aftur á móti fari aðeins um 30% af ráðningum sem fyrirtækið sér um í gegnum auglýsingaferli, en afgangurinn sé vegna fólks sem sé á skrá hjá fyrirtækinu og sé boðin staða, eða þá í gegnum fyrrnefnt hausaveiðaferli. Hún tekur þó fram að heildarfjöldi hausaveiða á ári hlaupi á nokkrum tugum, en þetta eru í eðli sínu bæði tímafrekari og dýrari aðferðir en við aðrar ráðningar.

Hagvangur er í samstarfi við alþjóðleg samtök hausaveiðara og þar koma stundum  fram tækifæri fyrir Íslendinga þegar erlend fyrirtæki leiti hingað til lands eftir starfskröftum. Að sögn Katrínar hafa íslensk fyrirtæki einnig nýtt sér þetta tengslanet í að sækja í erlenda stjórnendur. Hún segir þessa leið eiga við allar starfsgreinar hér á Íslandi.

Kynið skiptir ekki máli

Aðspurð um kynjahlutfall þegar kemur að hausaveiðum, segir Katrín að kynjahlutfallið sé orðið mjög jafnt. „Við heyrum ekki lengur þessar setningar eins og ég heyrði fyrir 20 árum að betra væri að ráða karl í stað konu“. Hún segir þetta atriði hafa gjörbreyst á síðustu áratugum. „Þegar maður á samskipti við fyrirtæki eru þau bara að biðja um bestu lausnina, það skiptir engu máli hvort það er karl eða kona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka