Nauðsynlegt að kröfuhafar sýni frumkvæði

Róbert Wessman segir nauðsynlegt að kröfuhafarnir sýni frumkvæði og komi …
Róbert Wessman segir nauðsynlegt að kröfuhafarnir sýni frumkvæði og komi með tillögur til Seðlabankans. Ómar Óskarsson

Róbert Wessman, fjárfestir og forstjóri Alvogen, segist hafa traustar heimildir fyrir því að um 80 til 90% af kröfuhöfum föllnu bankanna séu vogunarsjóðir eða aðrir sem hafi keypt kröfurnar eftir hrun og fengið þær því á miklum afslætti. Þetta sagði hann á fundi Eyjunnar um snjóhengjuvandann í morgun. Þá talaði hann fyrir því að sett yrði upp umgjörð sem myndi ýta kröfuhöfunum að því að koma sjálfir með raunhæfar tillögur til Seðlabankans um hvernig hægt er að veita þeim undanþágu með að afsala sér íslenskum eignum að fullu.

Sparar 30-50 milljarða og eykur hagvöxt

Sagði Róbert að með því að vinna á snjóhengjunni mætti losa um risastóran skuldsettan gjaldeyrisvaraforða sem myndi spara um 30 til 50 milljarða á ári í vaxtagreiðslur, en það nær langleiðina upp í verðmæti þorskaflans á hverju ári. Þetta eitt og sér geti leitt til þess að auka hagvöxt hér á landi um 1 til 3%, en þá sé ekki tekið mið af jákvæðum áhrifum af afnámi haftanna sjálfra.

Ríkið má ekki sjálft semja við kröfuhafana

Róbert benti á að ríkið sjálft mætti ekki semja við kröfuhafana. Það gæti skapað skaðabótaábyrgð eins og dæmi væru um frá Argentínu og víðar. „Þetta eru bú í gjaldþrotaskiptum og það sem skiptir máli í samhenginu hér er að kröfuhafar sjálfir komi með raunhæfa tillögur til Seðlabankans, því á endanum er það þannig að kröfuhafar þurfa undanþágu frá gildandi lögum til að taka þessa 2000 milljarða sem eru til í búunum í erlendum eignum út úr landi. Þeir hafa ekki heimild til þess í dag og Seðlabankinn getur á engan hátt samþykkt undanþágu ef það stefnir gjaldeyrisjöfnuði Íslands á einhvern hátt í voða,“ sagði Róbert í samtali við mbl.is

Nauðsynlegt að breyta lögum

Við þurfum að breyta ákveðnum lögum að mati Róberts. „Í fyrsta lagi þurfum við að breyta gjaldþrotalögum. Taka skýrt fram að aðeins megi greiða út úr íslenskum þrotabúum í íslenskum krónum. Þá eigum við að setja gömlu bönkunum skýr tímamörk að ef þau ná ekki nauðasamningum, þá verði þau sett í þrot innan fárra mánaða.  Að lokum að við hættum að greiða vexti af þessum hundruðum milljarða sem sitja inn á bankareiknum í dag í erlendri mynt.

Síðastnefnda atriðið er að mati Róbert helsta ástæða þess að útboð Seðlabankans hafa ekki gengið, því vextir sem menn fá greiddir af þessum reikningum eru miklu hærri en menn fá á innlánsreikningum í Bandaríkjunum.

Erlendir kröfuhafar afsali sér íslenskum eignum

Með þessum aðgerðum telur Róbert að erlendir kröfuhafar muni sjá sér hag í að koma til Seðlabankans með raunhæfa tillögu hvernig hægt er að veita þeim undanþágu með að afsala sér íslenskum eignum að fullu og koma með tillögur hvernig eigi að taka á erlenda Landsbankabréfi, sem mun að öðru óbreyttu klára gjaldeyrisvaraforða landsins innan fárra ára.

Vogunarsjóðirnir lang stærstu kröfuhafarnir

Róbert sagði á fundinum að hann hefði traustar heimildir fyrir því að um 80 til 90% af kröfuhöfum bankanna væru vogunarsjóðir eða aðilar sem hefðu keypt bréfin eftir fall bankanna. Oft hefur því verið haldið frama að þessi tala sé nær 40 til 50%, en Róbert segir að það sé vilji kröfuhafanna að halda slíku fram. Meðal annars hafi hann rætt við mikið af erlendum fjármálastofnunum og bönkum sem allar segi að þetta hlutfall sé í þessu efra þrepi.

„Uppistaðan eru vogunarsjóðir sem kaupa sig inn mjög ódýrt með skjótfengin gróða í huga sem Íslendingar og íslenskt samfélag myndi borga. Það er því mjög mikilvægt að við veitum engar undanþágur frá lögum nema þessir sömu aðilar komi með raunhæfa laust á þessum íslensku eignum.

Aðspurður um hvort íslenskir lífeyrissjóðir muni ekki tapa á slíku samkomulagi, þar sem þeir eiga í einhverjum tilfellum kröfur á föllnu bankana, segir Róbert að hann vonist til þess að tillögur erlendu aðilanna feli í sér einhverja lausn fyrir lífeyrissjóðanna.

Ekki hlusta á svanasöng vogunarsjóðanna

Hann segir kröfuhafana búna að ráða sér fullt af fjölmiðla- og almannatengslafólki til að koma á framfæri sjónarmiðum um það af hverju vogunarsjóðirnir eigi að fá undanþágu frá lögum án þess að eiga rétt á því. Róbert segir aðalmálið vera að „hlusta ekki á þann svanasöng, heldur breyta og styrkja löggjöf Íslands og láta þessa aðila koma sjálfa með tillöguna.“

Frá fundinum í morgun. Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, Róbert Wessman, fjárfestir, …
Frá fundinum í morgun. Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, Róbert Wessman, fjárfestir, Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Björn Ingi Hrafnsson, eigandi Vefpressunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK