Byrjuðu ferilinn með að blekkja bankann

Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri CLARA.
Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri CLARA.

Fyrir 5 árum síðan ákváðu nokkrir ungir menn í Háskóla Íslands að stofna fyrirtæki í kringum hugmynd sem þeir höfðu fengið og var markmiðið til langs tíma að sigra heiminn. Þeir byrjuðu þó smátt, ýktu virkni hugbúnaðarins aðeins til að byrja með og tóku svo áhættusamt skref með að fara í alþjóðamarkaðssókn. Þeir uppskáru þó eins og sáð var og nýlega var fyrirtækið selt fyrir um 11 milljónir Bandaríkjadala til Jive Software. Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, einn stofnenda Clöru spjallaði við mbl.is um þróunina, spunann við Íslandsbanka og söluna. 

Byrjaði 9 ára að forrita

Meðalaldur starfsmanna var í upphafi um 22 ár, en Gunnar var á þeim tíma í verkfræði og Jón Eðvald Vignisson, annar stofnenda Clöru, var í tölvunarfræði. Gunnar segir að hann hafi verið búinn að vinna á markaðsdeildinni hjá Vífilfelli meðfram skóla en Jón hafi aftur á móti verið á fullu í forritun frá 9 ára aldri.

Hugmynd þeirra var að koma með hugbúnað sem gæti greint mikið magn gagna á netinu og túlkað hvort umræða um fyrirtæki og málefni væri jákvæð eða neikvæð. Til að byrja með hafi þeir fengið styrk upp á 30 milljónir frá Tækniþróunarsjóði sem hafi komið þeim af stað.

Glitnir vildi skýrslu vegna nafnbreytingarinnar

Vegna styrksins tóku þeir þátt í árlegri sýningu sjóðsins. Segir Gunnar að í byrjun árs hafi sýningin verið haldin í Ráðhúsinu og sýnt hvernig hægt væri að spæna gegnum mikið magn texta og framreiða innihald textans á sjónrænan hátt.

Segir hann að þar hafi fyrir tilviljun verið einstaklingar frá markaðsdeild Glitnis. „Þeir spjölluðu mikið við okkur og sögðu að innan skamms væru þeir að fara að skipta um nafn, úr Glitni yfir í Íslandsbanka og væru að fylgjast með almenningsálitinu á netinu og hvað fólk væri að segja um nafnabreytinguna.“

Handvirka sjálfvirknin

„Við vorum mjög brattir á því og sögðum að það væri sjálfsagt að gera þetta verkefni fyrir þá og sömdum um að gera skýrslu um hvað netheimar höfðu um þetta að segja,“ segir Gunnar, en til verksins höfðu þeir um 1 mánuð.

Alls þurfti að fara í gegnum 20 til 30 þúsund greinar á netinu um nafnbreytinguna, en þeir hafi komist að því tveimur dögum fyrir áætlaða kynningu fyrir framkvæmdastjórninni að þetta væri hugsanlega örlítið ofviða þeim og þeirri tækni sem þeir bjuggu yfir þá.

„Tæknin sem við vorum byrjaðir að smíða var komin mjög skammt á leið og því ekki möguleiki fyrir okkur að klára þetta verkefni eins og við vildum gera það með gervigreind,“ segir Gunnar.

„Þegar við áttuðum okkur á því að þetta var of stórt verkefni hringdum við í nokkra félaga okkar og tókum þrjá daga og nætur samfellt og gerðum þetta í höndunum. Lásum í gegnum 30 þúsund greinar og stimpluðum handvirkt inn hvað fólki fannst um þetta.“

100% rétt, en smá ýkt aðferðafræði

Hann segir að síðan hafi þeir sett þetta fram á gagnvirkan hátt sem hafi komið mjög vel út, en svo gefið það hálfpartinn í skyn að þeir hefðu gert þetta sjálfvirkt. Segir hann að niðurstaðan úr könnuninni hafi örugglega hjálpað til við að ekki var meira farið ofan í greiningarvinnuna, en meðal annars hafi þeir fundið út að fólk hafi hætt að tengja nafn bankans við glæpi, lúxusjeppa og hrunið. Aftur á móti væri Íslandsbankanafnið tengdara nýbreytni og frumkvæði.

„Þetta var allt alveg satt og 100% rétt niðurstaða, enda lásum við í gegnum þetta alveg sjálfir. Niðurstöðurnar og gögnin voru rétt, en aðferðin var aðeins ýkt og við vorum frekar óljósir þegar við sögðum frá því hvernig við gerðum þetta,“ segir Gunnar hlæjandi.

Staðfesti grundvöll undir hugmyndina

Það sem þetta verkefni gerði þó var að það staðfesti fyrir Clöru-mönnum að fyrirtæki væru tilbúin að borga fyrir þjónustuna og það var notað til að sanna að hægt væri að gera meira úr hugmyndinni.

„Nokkrum mánuðum seinna voru algóritminn orðnir töluvert betri og þá var þetta orðið að Vaktaranum, en það tók okkur sex mánuði sem við héldum að myndi taka okkur tvær vikur,“ segir Gunnar, en fljótlega voru þeir komnir með tugi viðskiptavina. „Þetta voru orðin flest öll stór neytendamiðuð fyrirtæki,“ segir Gunnar, en meðal annars voru bankar, tryggingafélög og drykkjarvöruframleiðendur að nýta sér Vaktarann.

Gunnar segir þetta í raun vera næstu kynslóð markaðsrannsókna þar sem fyrirtækjum hafi verið gert kleift að vera með nákvæmari athuganir og ódýrari, en auk þess sé hægt að bregðast strax við neikvæðri upplifun neytendanna. Þannig segir hann að ef fyrirtæki heyri af neikvæðri umræðu á netinu geti þeir strax brugðist við, meðal annars með því að svara ásökunum eða bæta þjónustuna.

Ætluðu alltaf að sigra heiminn

Frá upphafi var markmið fyrirtækisins að sigra heiminn, að sögn Gunnars, þó það hafi ekki verið opinbert í upphafi. Þegar Vaktarinn var kominn vel á skrið fóru þeir fljótlega að skoða möguleikana á að markaðssetja hann erlendis. Þeir hafi þó fljótlega komist að því hversu erfitt er að selja hugbúnað á stóra markaðinum og því hafi þeir ákveðið að fókusa á eitthvert eitt svið og gera það vel. 

Í fyrstu hafi þeir skoðað fjármála-, tísku-, tónlistar-, snyrtivöru- og tölvuleikjageirann og fljótlega komist að því að tölvuleikjanotendur væru vænlegasti hópurinn þar sem þeir væru virkastir í netsamfélögum. 

CCP sýndi þessu meðal annars strax áhuga og aftur lofuðu Clöru-menn því að klára verkefni á stuttum tíma, en í þetta skiptið á tveimur mánuðum. Það hafi leitt til svefnlausra vikna, en í þetta skiptið hafi það tekist að smíða vöruna.

Stökkið út í heim

Tveimur árum síðar ákvað Gunnar að taka stórt skref og halda út í Kísildalinn og reyna að selja hugmyndina þar. Fyrstu dagana svaf hann á sófa hjá félaga sínum sem var í námi þar úti, en þremur vikum seinna gerði hann samning við Playstation, sem er einn stærsti aðilinn í þessum heimi og það breytti að hans sögn mikið því hvernig honum var tekið og auðveldaði að selja fleiri fyrirtækjum vöruna. 

Meðal annars hafi fleiri deildir hjá Sony, eiganda Playstation, tekið þetta kerfi upp og stærsti leikjadreifingaraðili í Þýskalandi líka. Stærsti leikur heims, Leauge of Legends ákvað einnig að nýta sér þessa greiningarvinnu, þannig að margir af stærstu aðilum leikjaheimsins nýta sér kerfið nú þegar.

Salan og hákarlasölumennirnir

Nýlega gengu þeir svo til samstarfs við hugbúnaðarfyrirtækið Jive um sölu á Clöru og segir Gunnar að það hafi verið mjög gæfulegt skref. Clara verði enn rekið sem sjálfstæð eining, en hafi á móti aðgang að 250 manna her af „hákarlasölumönnum“ í stað þess að þeir væru tveir. Þá sé einnig um 40 manna þjónustuver í stað þess að forritarnir væru að svara viðskiptavinum.

Aðspurður hvort fleiri hugmyndir séu í farvatninu hjá honum og hvort við munum sjá eitthvað nýtt koma frá þeim nú þegar þeir séu búnir að selja þessa hugmynd til stórfyrirtækis segir Gunnar að hann muni allavega halda sig um sinn hjá Jive. Hann útilokar þó ekki að einhverjar hugmyndir séu á sveimi sem geti orðið til góða hjá Jive.

Starfsmenn Clöru auk forseta Íslands.
Starfsmenn Clöru auk forseta Íslands. Clara
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK