Marel sagði upp 75 á síðastu mánuðum

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. 75 starfsmönnum fyrirtækisins var sagt …
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. 75 starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp á síðasta ársfjórðungi og áfram verður unnið að hagræðingaraðgerðum næstu 18-24 mánuðina. mbl.is/Árni Sæberg

Afkoma fyrsta ársfjórðungs hjá Marel er ekki í samræmi við getu félagsins að mati stjórnenda og á næstu ársfjórðungum verður haldið áfram með aðgerðir sem hingað til hafa skilað 3,6 milljón evra hagræðingu. Þetta segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í samtali við mbl.is, en fyrirtækið kynnti afkomu sína á fjárfestafundi í morgun.

Starfsmönnum fækkað um 75 á ársfjórðungnum

Fyrirtækið tapaði 1,9 milljón evrum á tímabilinu, samanborið við 5,7 milljón evra hagnað á sama tíma í fyrra. Þegar horft er til leiðrétts rekstrarhagnaðar, meðal annars með tilliti til hagræðingaraðgerða, er hann 4,6 milljónir og segir Árni Oddur að aðgerðunum núna fylgi ákveðinn kostnaður sem muni skila sér til framtíðar. „Þetta endurspeglar ekki getu félagsins og því höfum við gripið til hagræðingaraðgerðanna,“ segir Árni Oddur.

„Það verða tekin ákveðin skref á næstu ársfjórðungum til að gera félagið skilvirkar og skila hagnaði í línu við samkeppnisstöðu þess,“ segir hann, en á síðasta ársfjórðungi var 75 starfsmönnum sagt upp hjá fyrirtækinu, þar af 25 stjórnendur. Aðspurður um hvort haldið verði áfram að fækka starfsfólki segir Árni Oddur að félagið sé í breytingarfasa og muni áfram taka breytingum á næstu 18-24 mánuðum. Þegar hann er spurður hvort horft sé til starfa hér á landi eða erlendis segir Árni Oddur að horft sé á félagið í heild þegar kemur að breytingum og hagræðingu.

Kaupendur að stórum kerfum hafa ekki tekið við sér

Tekjur fyrirtækisins lækkuðu um 2% frá sama tíma í fyrra og námu 154,8 milljón evrum. Árni Oddur segir að sala á staðlaðri vöru hafi aukist milli ára, en að sala stórum kerfum hafi ekki farið nægjanlega hratt af stað. Á síðustu uppgjörsfundum hefur verið tíðrætt um að komið sé að þeim tímapunkti að framleiðendur fari að fjárfesta í nýjum tækjum, en hingað til virðist það ekki hafa gengið eftir. Árni Oddur segist þó ennþá vera jákvæður. „Við erum bjartsýn á Bandaríkjamarkað og Suður-Ameríkumarkað. Það er ljóst að Evrópumarkaðurinn er í hægagangi, en við erum bjartsýn á nýmarkaði til bæði meðallangs og lengri tíma,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK