Áhugi á gagnaverum enn til staðar

AFP

Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri Blönduósbæjar, segir það vera ljóst að erlendir aðilar séu í meira mæli en áður farnir að horfa hingað til lands. Áhugi þeirra á að fjárfesta hér á landi, sér í lagi í uppbyggingu gagnavera, hafi bersýnilega aukist.

Í samtali við mbl.is segir hann að bærinn hafi átt í óformlegum viðræðum við ýmis erlend fyrirtæki, þar á meðal í Bandaríkjunum og Evrópu, um byggingu gagnavers á Blönduósi. Hann segir að nokkur fyrirtæki hafi sótt landið heim og kannað aðstæður en ekkert sé hins vegar enn fast í hendi.

Bærinn hefur átt í samstarfi við Íslandsstofu um að markaðssetja Íslandi, og þá sér í lagi Blönduós, sem fýsilegan kost fyrir gagnaversiðnað. Fá sveitarfélög hér á landi eru eins vel undirbúin fyrir uppbyggingu gagnavera og Blönduósbær. 

Bjartsýnn bæjarstjóri

Bærinn var á sínum tíma eitt fjölmargra sveitarfélaga sem áttu í samstarfi við fyrirtæki sem hugðust skoða möguleikann á því að byggja upp gagnaver. Fyrirtækið Greenstone hafði til dæmis í hyggju að reisa gagnaver á Blönduósi en féll frá áformum sínum í aprílmánuði árið 2012.

Bæjarstjórinn lætur samt sem áður engan bilbug á sér finna og segist enn vera bjartsýnn.

„Við erum bara bjartsýn. Það eru auðvitað ekki einungis erlendir aðilar sem eru að horfa hingað, heldur líka innlendir aðilar. Við erum að vinna á fullu í þessu, en þetta tekur auðvitað sinn tíma,“ segir hann og bætir því við að þörfin sé mikil. Algjör veldisvöxtur sé í geiranum.

Gagnamagn hafi aukist mikið sem þýði að töluverðrar uppbyggingar gagnavera sé þörf á næstu árum.

Áhuginn er fyrir hendi

Arnar Þór segist hafa sótt ráðstefnu um gagnaver ásamt fjölmörgum hagsmunaaðilum í Þýskalandi í vor. „Þar var maður var við mikinn áhuga á landinu. Margir eru til dæmis að horfa til þessarar grænu orku og kalda loftslagsins sem Ísland býður upp á. Það eru alltaf einhverjir að banka á dyrnar og vilja fá frekari upplýsingar um svæðið,“ segir hann.

Aðspurður segir Arnar Þór að flestallt sé nú þegar til taks á Blönduósi fyrir uppbyggingu af þessu tagi. Búið sé að skipuleggja - í aðalskipulaginu - rúmlega 270 hektara land undir gagnaver, stutt sé í Blönduvirkjun, loftið sé kalt og gott og góðar raforku- og ljósleiðaratengingar séu jafnframt fyrir hendi.

Sveitarfélagið hafi lagt mikla vinnu í að laða erlend fyrirtæki að og láti engan bilbug á sér finna, þrátt fyrir að fyrri áform hafi ekki gengið eftir.

Alþingi samþykkti um áramótin þingsályktunartillögu þar sem hvatt er til þess að atvinnulífið í Austur-Húnavatnssýslu verði eflt og ný störf sköpuð þannig að hægt sé að nýta raforku úr Blönduvirkjum á sem hagkvæmastan hátt.

Fyrst og fremst sé þá horft til gagnavers á Blönduósi. 

Reyna að fá orkufrekan iðnað í héraðið

Frá því að Blönduvirkjun var fyrst tekin í gagnið fyrir 23 árum hafa sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu reynt hvað þau geta til að fá orkufrekan iðnað í héraðið.

Í greinargerð með tillögunni segir að samstarf við innlenda og erlenda aðila, sem hafa reynslu af byggingu gagnavera, hafi leitt í ljós að svæðið sé kjörið fyrir starfsemi öflugs gagnavers, sem krefst verulegrar raforku með miklu afhendingaröryggi, gnægð byggingarlands og góðum kælimöguleikum.

Orkuöryggið byggist að verulegu leyti á nálægð við Blönduvirkjun og tengivirki Landsnets við Laxárvirkjun og þá sé náttúruleg vá enn fremur í lágmarki miðað við íslenskar aðstæður, þar sem svæðið sé utan virkra eldfjalla- og jarðskjálftasvæða.

Hætta á flóðbylgjum, snjóflóðum og skriðuföllum sé ekki heldur til staðar.

Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Arnar Þór segir að það sé eitthvað sem sveitarfélagið sé nú að vinna að.

„Stefnt er að því að skipa hópinn nú í sumar og ætti hann því að öllu óbreyttu að hefjast handa nú í sumar eða haust,“ segir hann og bætir við að vinnan muni helst felast í því að markaðssetja kosti svæðisins, vinna greiningar um tækifærin og reyna að koma svæðinu betur á kortið.

Ísland að dragast aftur úr?

Í Morgunblaðinu á þriðjudaginn var fjallað um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í gagnaversiðnaðinum hér á landi seinustu ár.

Aðeins tvö gagnaver hafa komist á legg, hjá Verne Global í Reykjanesbæ og Advania Thor Data Center í Hafnarfirði, en þau tóku til starfa árið 2010. Það síðarnefnda hugar nú að stækkun, en í undirbúningi er annars vegar bygging 2.500 fermetra gagnavers á Fitjum í Reykjanesbæ, á Patterson-svæðinu svonefnda, og hins vegar stækkun í Hafnarfirði.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Advania og formaður Samtaka gagnavera, sagði í samtali við Morgunblaðið að þó svo að vöxtur gagnavera Advania og Verne hefði verið þónokkur, þá værum við að dragast aftur úr með hverju árinu sem líður.

„Vöxtur gagnaveramarkaðarins er slíkur að við þyrftum að vera að vaxa margfalt á við það sem við gerum í dag,“ sagði Eyjólfur Magnús.

Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri Blönduósbæjar.
Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri Blönduósbæjar.
Úr Advania Thor gagnaverinu í Hafnarfirði.
Úr Advania Thor gagnaverinu í Hafnarfirði.
Frá Blönduós.
Frá Blönduós. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK