595 milljarða vantar í lífeyrissjóðina

Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins.
Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins. Styrmir Kári

Meðal lífeyrissjóða landsins sem hafa ríkisábyrgð er mikill halli og er tryggingafræðileg staða þeirra neikvæð um 595 milljarða, eða 38%. Staðan er mun betri hjá sjóðum án ábyrgðar, en halli þeirra er um 68 milljarðar, eða um 2%. Ekki er enn komið að gjalddaga á þessum skuldbindingum, en stjórnvöld þurfa að fara að huga að því að koma þessum málum í jafnvægi, líkt og sveitarfélög hafa gert á síðustu árum með auknum iðgjöldum í sveitarfélagssjóði. Þetta sagði Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins á kynningarfundi um stöðu lífeyriskerfisins.

10 milljarða þarf á ári aukalega í sjóðina

Setja þarf um 10 milljarða árlega á næstu árum í sjóðina til að þeir tæmist ekki, en Björn sagði að þeir gætu brunnið inni á næstu 15–20 árum ef ekkert verður gert. Fyrir um þremur árum var þessi upphæð um 7 milljarðar sem þurfti að bæta við árlega og því ljóst að hún fer nokkuð hækkandi.

Ekki skynsamlegt að fjármagna það með lántöku

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði á fundinum að þrátt fyrir þessa stöðu væri ekki um að ræða reikninga sem væru á gjalddaga strax og að það væri ekki skynsamlegt fyrir ríkið að fara í lántökur til þess að setja í fjárfestingar. Frekar væri um að ræða forgangsröðun í fjárflæði ríkisins og það þyrfti að hafa þetta í huga á komandi árum.

Björn benti á að meðal þess sem hefði verið rætt væri hækkun eftirlaunaaldursins, en hann hefur um langan tíma verið við 67 ára aldurinn. Sagði hann að á þeim tíma sem þetta viðmið hefði verið við lýði hefði lífaldur Íslendinga aukist um fjögur ár. Hann tók þó fram að þetta væri algjörlega pólitísk ákvörðun sem Fjármálaeftirlitið kæmi ekki að.

Sjá fyrir fækkun sjóða á næstunni

Í samtali við mbl.is sagði Björn að sjóðum hefði fækkað nokkuð á síðasta ári, um fimm talsins. Í dag væru þeir 27, en hann gerði ráð fyrir að á næstu árum yrði áframhaldandi þjöppun á þessum markaði og því til stuðnings benti hann á að enn væru tæplega tíu sjóðir með undir 50 milljarða í eign. Það væri í minnsta lagi, en 100 milljarða sjóðir væru algengt viðmið. Fjármálaeftirlitið mun ekki ýta undir þessa breytingar, en hann sagðist telja hana eðlilega þróun með auknum kostnaði við áhættustýringu og skýrslugjöf við opinberar stofnanir.

Hér á landi er LSR með um 17% af eignum lífeyrissjóða og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 16,1%. Björn bendir á að í Hollandi, sem oft er borið saman við Ísland á þessum vettvangi, sé stærsti sjóðurinn með í kringum 35% af eignum. Því sé stærð sjóðanna ekki áhyggjuefni hér á landi og geti jafnvel aukist eitthvað.

Staða ÍLS getur haft áhrif á lífeyrissjóðina

Í yfirliti eftirlitsins kemur fram að lífeyrissjóðirnir eiga um þriðjung allra skráðra hlutabréfa á landinu til viðbótar við töluvert magn af óskráðum bréfum í gegnum framtakssjóði og sameignarhlutafélög. Aðspurður hvort þetta væri orðið áhyggjuefni sagði Björn að þetta væri afleiðing haftanna, en að Fjármálaeftirlitið teldi ekki rétt að grípa til neinna aðgerða eins og mál stæðu í dag.

Á fundinum kom fram að tveir þriðju af útgefnum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs væru í eigu lífeyrissjóðanna. Aðspurður um hvort að þetta sé áhyggjuefni fyrir sjóðina í ljósi stöðu ÍLS segir Björn að menn bíði þar með nokkrar áhyggjur eftir að mál leysist og vonist til þess að þau fari farsællega. Í heild er um að ræða 700 milljarða skuldabréfbréfaeign og því töluverðan bita fyrir sjóðina.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK