Lífeyrissjóðir mótfallnir afnámi beinna fasteignalána

Hlutdeild lífeyrissjóðanna í beinum íbúðalánum hefur verið á bilinu 11-13% …
Hlutdeild lífeyrissjóðanna í beinum íbúðalánum hefur verið á bilinu 11-13% á síðustu misserum. mbl.is/Styrmir Kári

Sérfræðingahópur Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) leggst eindregið gegn því að heimild lífeyrissjóða til að veita bein fasteignaveðlán verði afnumin. Slík breyting dragi úr samkeppni um lánskjör og sé jafnframt líkleg til að fækka valkostum lántaka um lánaskilmála.

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála, sem félagsmálaráðherra skipaði í fyrra, hefur lagt til að tekið verði upp húsnæðiskerfi að danskri fyrirmynd þar sem lánveitingar til húsnæðiskaupa fari í gegnum sérstök húsnæðislánafélög. Félögin megi eingöngu lána til húsnæðiskaupa og fjármagna útlán með útgáfu sértryggðra húsnæðisveðskuldabréfa.

Í umsögn sérfræðingahóps LL er bent á að lífeyrissjóðir hafi um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki þegar kemur að fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Hlutdeild þeirra í beinum íbúðalánum hafi að jafnaði verið á bilinu 11-13% síðustu misserin.

„Þátttaka lífeyrissjóða á markaði fyrir fasteignaveðtryggð lán til einstaklinga byggir á áratuga sögu og reynslu, hefur verið eftirsótt af lántökum og aukið úrval í framboði til einstaklinga. Hún hefur leitt til virkari samkeppni og hefur ekki hindrað aðra lánveitendur til virkrar þátttöku á þessum markaði,“ segir í umsögninni.

Ekki sé því tilefni til að takmarka þessar heimildir lífeyrissjóðanna, eins og lagt er til.

Hópurinn gerir ennfremur fyrirvara um nauðsyn þess að „skikka alla lánveitendur sem veita fasteignaveðlán til einstaklinga til að gera það í gegnum sérstök húsnæðislánafélög“. Ekki sé heldur ráðlegt að skylda lífeyrissjóðina til að setja á stofn húsnæðislánafélög – með tilheyrandi kostnaði – sem selur þeim sjálfum skuldabréf.

Valfrelsi lántaka lykilatriði

Í tillögum sínum leggur verkefnisstjórnin til að lán verði til framtíðar óverðtryggð. Sérfræðingahópurinn telur hins vegar mikilvægt að lögð verði áhersla á valfrelsi lántakenda. Skapaðar verði aðstæður sem stuðli að fjölbreytni í lánakostum. „Ekki er lagst gegn því að vægi óverðtryggðra lána aukist, ef lántakendur velja þann kost, en forsenda þess að sá valkostur verði farsæll til lengdar er að jafnvægi náist í efnahagsmálum Íslands,“ segir í umsögninni. Gjaldmiðillinn þurfi að haldast stöðugur og verðbólgan lág.

„Lífeyrissjóðir munu alltaf geta boðið upp á óverðtryggð lán, en eftir því sem óvissa með verðbólguhorfur er meiri er líklegt að slík lán verði dýrari en verðtryggð lán,“ segir í umsögn hópsins. Það orki því tvímælis að einskorða framboð íbúðalána við óverðtryggð lán áður en stöðugleika sé náð í efnahagsmálunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK