Samkomulag Sparnaðar liggur fyrir

Gestur Breiðfjörð.
Gestur Breiðfjörð. Ljósmynd/Sparnaður

Vinna við samkomulag á milli Sparnaðar og Seðlabanka Íslands stendur nú yfir þótt ekki sé búið að skrifa undir. Þetta segir Gestur Breiðfjörð Gestsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Sparnaður er umboðsaðili þýska trygg­inga­fyr­ir­tæk­is­ins Bayern.

Seðlabankinn komst að samkomulagi við Alli­anz á Íslandi á fimmtudaginn í síðustu viku sem gerir trygg­inga­fé­lag­inu og viðskipta­vin­um þess hér á landi kleift að viðhalda óbreyttu samnings­sam­bandi. Á mánudaginn sl. greindu forsvarsmenn Sparnaðar frá því að samningsdrög lægju fyrir og gerðu þeir ráð fyrir að skrifað yrði undir innan einnar viku.

Þann 17. júní tilkynnti Seðlabankinn að gjaldeyrisviðskipti tryggingafélaganna yrðu stöðvuð þar sem samningar þeirra, sem fólu í sér uppsöfnun á sparnaði í erlendum gjaldeyri, voru taldir brjóta gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál allt frá setningu fjármagnshafta 2008. Til að lágmarka tjón einstaklinga boðaði Seðlabankinn jafnframt breytingar á reglum um gjaldeyrismál því skyni að þeir gætu viðhaldið samningssambandi sínu við tryggingafélögin. Þannig var félögunum veittar bæði tímabundnar og varanlegar undanþágur frá höftum.  

Í kjölfarið sagði Sparnaður öllu starfsfólki sínu upp en forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu jafnframt að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka ef samningar næðust.

Gestur vildi ekki tjá sig um hvort starfsmennirnir yrðu endurráðnir en ítrekaði að samkomulagið hefði ekki verið undirritað þótt vinnan væri vel á veg komin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK