Tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku

Straumur keypti 20% hlut í MP banka á ríflega 500 …
Straumur keypti 20% hlut í MP banka á ríflega 500 milljónir.

Straumur fjárfestingabanki hefur keypt nærri 20% hlut í MP banka af tveimur erlendum hluthöfum bankans. Var kaupverðið um fimm hundruð milljónir.

Ljóst þykir að með kaupunum leitast Straumur eftir því að gera tilraun til að yfirtaka MP banka, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Viðskiptamogganum í dag. Gera má ráð fyrir að boðað verði til hluthafafundar þar sem ný stjórn verður kosin, um leið og FME hefur veitt samþykki sitt fyrir því að Straumur sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut í MP banka.

Á meðal stjórnenda og hluthafa MP banka er litið á kaup Straums sem tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku. Eru hins vegar efasemdir um að Straumi takist að afla sér stuðnings meirihluta hluthafa. Eftir samtöl við alla hluthafa MP banka er talið að yfir 60% þeirra muni setja sig upp á móti sameiningaráformum Straums, samkvæmt áreiðanlegum heimildum.

Í samtali við Morgunblaðið staðfesti Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, að bankinn hefði staðið að baki kaupum á 20% hlut í MP banka. Hann hafnar því hins vegar alfarið að kaupin séu tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku.

Kaupa 27,5% í ÍV

Fengu stjórnendur MP banka fréttir af kaupum Straums sl. mánudag, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að bankinn gekk frá samkomulagi um að kaupa 27,5% hlut Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum (ÍV). Ásamt MP banka, sem kaupir 10% hlut í ÍV, þá eru kaupendur Lífeyrissjóður verslunarmanna (10%) og Garðar K. Vilhjálmsson (7,5%), lögmaður og eigandi bílaleigunnar Geysis.

Aðrir eigendur í hluthafahópi ÍV hafa nú um einn mánuð til stefnu vilji þeir nýta sér forkaupsrétt sinn til að stíga inn í kaupin. Ljóst þykir að kaup Straums fjárfestingabanka á fimmtungshlut í MP banka gætu ráðið úrslitum í þeim efnum en á meðal stærstu hluthafa ÍV eru Stapi lífeyrissjóður á Akureyri, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga og Lífeyrissjóður Vestfirðinga. Lítill áhugi er fyrir því hjá ýmsum hluthöfum ÍV að Straumur eignist hlut í félaginu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Óttast þeir, takist Straumi að yfirtaka MP banka, að það gæti haft áhrif á hvort starfsemi félagsins yrði haldið áfram í óbreyttri mynd á Akureyri.

Eiginkona Finns á 2,6% hlut

Seljendur að 20% hlut í MP banka voru félögin Manastur Holding og Linley Limited í eigu breska fjárfestisins Joseph Lewis og Rowland-fjölskyldunnar sem á meðal annars Banque Havilland í Lúxemborg. Tilkynnt var um kaupin til FME á mánudaginn, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Nýir eigendur komu að Straumi í lok júlí þegar hópur fjárfesta keypti 65% í bankanum. Var hópurinn leiddur af viðskiptafélögunum Finni Reyr Stefánssyni og Tómasi Kristjánssyni, eigendum fjárfestingafélagsins Siglu. Finnur er nú stjórnarformaður Straums. Á meðal hluthafa í MP banka er eiginkona Finns, Steinunn Jónsdóttir, en fjárfestingafélag hennar Arkur fer með 2,56% hlut í bankanum. Félag Finns og Tómasar á einnig tæplega 1% hlut í MP banka.

Áform nýrra meirihlutaeigenda Straums hafa frá upphafi staðið til þess að sameinast MP banka. Þannig greindi Morgunblaðið frá því 10. júlí að þreifingar væru hafnar um mögulega sameiningu félaganna. Þær óformlegu viðræður, sen hófust að frumkvæði Straums, sigldu hins vegar fljótlega í strand. Töldu hluthafar MP banka að verðhugmyndir sem Straumur hafði um MP banka væru óásættanlegar. Vildu hluthafar Straums að skiptihlutföll við hugsanlegan samruna yrðu með þeim hætti að Straumur væri verðmetinn miðað við fullt bókfært eiginfjárvirði en MP banki á genginu 0,5 miðað við bókfært eigið fé, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Straumur kaupir 20% í MP banka

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK