Hægja mun á olíuleit við Ísland

AFP

Til lengri tíma bendir flest til þess að heimsmarkaðsverð á olíu eigi eftir að hækka. Þetta kom fram í máli Ketils Sigurjónssonar, lögfræðings og sérfræðings í orkumálum, á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem fram fór á Grand Hóteli í dag þar sem rætt var um lækkandi olíuverð og áhrif þess á framtíðarhorfur Íslands.

Ketill sagði meginskýringuna á lækkandi olíuverði um þessar mundir vera offramboð á olíu. Lækkunin skýrðist einfaldlega af því að allt í einu væri of mikið framboð á olíu eða of lítil eftirspurn. Sádi-Arabía væri eina ríkið sem í raun gæti haft mikil áhrif á olíuverð annaðhvort með því að hægja á olíuframleiðslu eða auka hana. Spurningin sé hvort Sádi-Arabar kunni að minnka framleiðsluna til þess að stuðla að hærra verði. Þeir hafi til þessa ekki viljað gera það með þeim rökum að markaðshlutdeild þeirra hafi minnkað og þeir vilji endurheimta hana.

Ríkisbúskapur Sádi Araba þarf hærra olíuverð

Rétt væri þó að hafa í huga að slíkar tímabundnar lækkanir væru ekki einsdæmi á undanförnum áratugum. Ýmis dæmi væru um slíkt. Margt benti til þess að olíuverð ætti eftir að hækka aftur og nefndi Ketill að ríkisbúskapur Sádi-Araba og fleiri olíuframleiðsluríkja við Persaflóa væri háður því að olíuverð væri hærra. Að öðrum kosti yrði ríkin að skuldsetja sig til þess að standa undir rekstri hins opinbera eða skera mjög niður sem væri ávísun á ókyrrð heimafyrir.

Hvað Ísland varðaði væri lægra olíuverð jákvætt fyrir landið þar sem fá ríki í heiminum flyttu eins mikið inn af eldsneyti og Íslendingar miðað við höfðatölu. Deila mætti um hverjir högnuðust mest á því en að einhverju marki skilaði það sér engu að síður að lokum til íslenskra neytenda. Hins vegar væri það ekki eins jákvætt fyrir þá sem gerðu sér vonir um olíuvinnslu við Ísland.

Ketill sagði ljóst að hægja myndi á olíuleit á norðurslóðum af þessum sökum og varla yrði áhugavert að fjárfesta í slíkri leit nema verulegar líkur teldust á því að hægt yrði að vinna um 500 milljónir tunna á viðkomandi svæði.

Ketill Sigurjónsson.
Ketill Sigurjónsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK