Neytendavernd verri hér en í Króatíu

Davor Purusic lögfræðingur.
Davor Purusic lögfræðingur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lög um neytendalán í Króatíu virðast ganga lengra í að vernda neytendur gagnvart fjármálastofnunum og öðrum lánveitendum en sambærileg lög hér á landi, þótt lögin byggist á sömu tilskipun frá Evrópusambandinu.

Í Króatíu lögðust smálánafyrirtæki og önnur sem leggja okurvexti á lán sín einfaldlega af með nýjum lagaákvæðum sem gerðu þau eftirlitsskyld. Lögfræðingurinn Davor Purusic rýndi í íslenska og króatíska neytendalánalöggjöf og telur að margt megi læra af reynslu Króata.

Það var árið 2009 sem Króatía setti sér heildstæða löggjöf um vernd neytenda á fjármálamarkaði. Lögin voru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins nr. 48 frá 2008. Með tilskipuninni, sem innleiða átti á EES svæðinu, var ætlunin meðal annars að samræma lagaumhverfi allra Evrópuþjóða hvað varðar neytendalán, auka kröfur um upplýsingagjöf lánveitenda til lántaka og tryggja frekar rétt neytenda í samskiptum við fjármálafyrirtæki.

Íslendingar innleiddu þessa sömu tilskipun með lögum um neytendalán ekki fyrr en fyrir fjórum árum þegar lög um neytendalán tóku gildi í nóvember 2013.

Davor Purusic er lögfræðingur að mennt og rekur uppruna sinn til Bosníu. Hann hefur serbó-króatísku að móðurmáli eða sama tungumál og talað er í Króatíu. Davor hefur starfað hjá Umboðsmanni skuldara og hefur því víðtæka þekkingu á löggjöf sem snýr að neytendum og neytendalánum hér á landi.

Of mikið hugsað um hag fjármálafyrirtækja hér á landi

Davor segir sér hafi komið á óvart hversu framarlega Króatar standa í því að vernda neytendur á lánamarkaði, mun framar en Íslendingar.

„Króatar standa Íslendingum langt að baki á flestöllum sviðum, hvort sem það er jafnrétti, velferðarmál eða annað. En þegar kemur að heildstæðri löggjöf um neytendalán og neytendavernd þá standa þeir Íslendingum mun framar,“ segir Davor.

Lögunum sem sett voru í Króatíu 2009 hefur í tvígang verið breytt frá því að þau voru sett. Fyrri breytingin, sem tók gildi í lok árs 2012, varð til þess að smálánafyrirtækið Minikredit, nokkurs konar systurfyrirtæki Hraðpeninga sem enn starfar hér á landi, gat ekki lengur starfað í landinu.

Davor segir hvergi beinlínis talað um smálánafyrirtæki í króatísku lögunum eða síðari breytingum. En í greinargerð með lögunum sem samþykkt voru á króatíska þinginu 2009 segir að ástæður lagasetningarinnar séu einkum tvær: Önnur er innleiðing á fyrrnefndri tilskipun Evrópusambandsins en hin er sú að „margar nýjar tegundir af lánum“ hafi bæst við flóruna og því sé talin ástæða til að setja skýrari lög en áður hafi gilt um vernd neytenda.

„Það er bara farið alla leið með þetta. Löggjöfin sem þarna er sett miðar að því að tryggja rétt neytenda en þarna er hvergi sérstaklega talað um hagsmuni fjármálafyrirtækja. Hér á Íslandi er alltaf verið að hugsa um að skapa þægilegt umhverfi fyrir bankana svo þeir vilji nú örugglega vera hér á landi. Í Króatíu er ekki sama áherslan á hagsmuni bankanna og hérlendis heldur er áherslan skýr á að vernda rétt neytenda á fjármálamarkaði. Og þá er það bara gert,“ segir Davor.

Hann telur að verulega skorti upp á að það sé viðurkennt hér á landi að neytendur þurfi vernd sem veikari aðilinn í samskiptum við valdameiri aðila líkt og banka og aðra lánveitendur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK