Súpuvagninn sótti ekki um stæði

Nú á að selja súpuvagninn.
Nú á að selja súpuvagninn. Af Facebooksíðu Farmers soup

Engin umsókn hefur borist frá eiganda Farmers Market súpubílsins um áframhaldandi leyfi fyrir starfseminni. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var stæði á Skólavörðuholti útbúið fyrir hana á síðasta ári og við fyrstu sýn hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að veita henni stæðið aftur.

Jón­ína Gunn­ars­dótt­ir, eigandi bílsins, birti í gær færslu á Facebook síðu fyrirtækisins þar sem hún sagðist ekki mega vera með bíl á Skólavörðuholti þar sem einungis vagnar mættu vera þar. Þetta væri staðan eftir reglugerðarbreytingu hjá borginni. Þetta staðfesti hún í samtali við mbl þar sem hún sagðist hafa boðist til að taka vélina úr bílnum, þannig að um væri að ræða farartæki sem þyrfti að draga, líkt og vagn. Það hefði ekki verið samþykkt og því þurfi hún að fjarlægja bílinn í maí.

Stæði var útbúið fyrir bílinn 

Jóhann S D Christiansen, verkefnastjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sér um götu- og torgsölu í Reykjavík. Hann segir alla samninga renna út þann 15. maí. Því hafi allir þurft að sækja um að nýju. Það hafi Jónína hins vegar ekki gert.

Hann bendir á að það hafi einnig verið bannað að leggja bílum á torgum og gangstéttum í fyrra en að borgin hafi hins vegar útbúið fyrir hana sérstakt stæði á Skólavörðuholti, tekið niður blómabeð og flutt tré, til þess að hún gæti afgreitt súpu beint inn á gangstéttina.

„Borgin er að gera allt í sínu valdi til þess að liðka fyrir svona starfsemi,“ segir Jóhann. „Þetta var frumlegt og flott framsett hjá henni með íslenskum mat,“ segir Jóhann.

Hann segir erfitt að svara því hvort Jónína hefði fengið aftur sama pláss ef hún hefði sótt um. Fátt bendi þó til annars.

Samkvæmt samþykkt um götu‐ og torgsölu í Reykjavík, má ekki leggja bílum á torgum eða gangstéttum. Jóhann segir bílana einfaldlega eiga heima á götunni þar sem vegfarendur eru ekki á ferð. Því hafi söluaðilar verið hvattir til þess að vera frekar með vagna.

Eina breytingin sem gerð hefur verið á samþykktinni frá fyrra ári varðar framlenginu á samningum. „Það verður hægt að framlengja hann í tvö ár. Þetta er gert fyrir fólk sem hefur verið að fjárfesta í starfseminni og ef menn hafa gengið snyrtilega um og ekkert hefur verið að starfseminni geta þeir sótt um að nýju og átt forgang.“

Við úthlutun stæða gildir fyrst og fremst reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“, líkt og fram kemur í samþykktinni. Jóhann segir að opnað hafi verið fyrir umsóknir hinn 16. mars og þegar hefur verið haft samband við nokkra sem hafa fengið úthlutað plássi fyrir vagna, bíla eða annars konar sölustað á götum og torgum.

Hann segir að von sé á blómlegri og líflegri starfsemi og bætir við að margir nýir aðilar hafi sótt um. 

Ekki náðist í Jónínu við vinnslu fréttarinnar.

Frétt mbl.is: Missir stæðið og selur vagninn

Uppfært kl: 18:40. Samkvæmt heimildum mbl sótti Jónína ekki um stæðið þar sem henni hafði verið tjáð eftir bréfaskriftir við Reykjavíkurborg að ekki yrði í boði að vera með matsölu úr bifreiðum í borginni. Hins vegar er verið að vinna úr málinu og Farmers Soup fær mögulega stæði.

Stæðið var útbúið sérstaklega á Skólavörðuholti.
Stæðið var útbúið sérstaklega á Skólavörðuholti. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK