170 skattabreytingar á 8 árum

Skattabreytingar hafa verið tíðar eftir hrun.
Skattabreytingar hafa verið tíðar eftir hrun. mbl.is/Kristinn

Á síðustu átta árum hafa verið gerðar 170 skattabreytingar. Þar af eru um 140 skattahækkanir. „Það er ansi bratt ef fyrirtæki eiga að geta séð rekstrarforsendur næstu ára fyrir sér,“ sagði Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, á morgunfundi VÍB og Viðskiptaráðs um samkeppnishæfni Íslands í morgun.

Ísland færist upp um eitt sæti í úttekt IMD um sam­keppn­is­hæfni 61 ríkis og situr í 24. sæti.

Frétt mbl.is: Ísland er bara nokkuð gott“

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, tók undir með Frosta og sagði að nauðsynlegt væri að tryggja að Íslendingar búi við sambærileg kjör og erlendir samkeppnisaðilar, bæði hvað varar skatta- og eftirlitsumhverfið.

Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens, fullyrti að Promens hefði ekki flutt úr landi ef fjármagnshöft hefðu ekki verið fyrir hendi og sagði nauðsynlegt að Ísland væri móttækilegra fyrir erlendri fjárfestingu. 

Líkt og mbl greindi frá tóku Fram­taks­sjóður Íslands og Lands­bank­inn í janúar ákvörðun um að selja Promens úr landi eft­ir að Seðlabank­inn hafnaði beiðni þess um heim­ild til að flytja 30-50 millj­ón­ir evra úr landi, eða sem svar­ar 4,5-7,5 millj­örðum króna, sem ætlaðar voru til frek­ari vaxt­ar fyr­ir­tæk­is­ins

Frétt mbl.is: Forstjóri Promens hættir og höfuðstöðvar flytjast frá Íslandi

Í skýrslunni eru fimm stærstu viðfangsefni Íslands útlistuð og tekið er fram að úrlausn þeirra ráði miklu um útkomuna að ári liðnu. Þau eru: Að leysa vítækar og raskandi deilur á vinnumarkaði, að flýta afnámi hafta og mótun peningastefnu til framtíðar, að styðja við efnahagslegan stöðugleika með aukinni samfélagslegri sátt, að draga úr opinberum skuldum með rekstrarumbótum og að opna fyrir alþjóðaviðskipti til að auka framleiðni í innlendum atvinnugreinum.

Á fundinum sagði Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, að það væri ekkert grín að fá vel menntað starfsfólk til þess að flytja til landsins. Smæðin og efnahagsástandið væru tvær hindranir. „Þetta er ekkert aðlaðandi. Það verður að segjast,“ sagði hún og bætti við að erfitt væri að byggja upp alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi af þessum sökum.

Þrefalda mannfjölda og hitastig

Frosti Ólafsson sagði einnig að smæð Íslands væri með okkar stærsta vandamál og einn helsti kostur. „Við eigum stórt land sem dreifist á færri aðila og höfum úr miklu að spila hvað höfðatölu varðar. Á sama tíma náum við ekki stærðarhagkvæmni og búum við meiri óstöðugleika, sem ég held að orsakist m.a. af smæðinni,“ sagði hann. „Ef við myndum þrefalda mannfjöldann og þrefalda meðalhitastigið yrði þetta kannski besta land í heimi,“ sagði hann léttur í bragði.

Promens hefði ekki flutt úr landi ef gjaldeyrishöft hefðu ekki …
Promens hefði ekki flutt úr landi ef gjaldeyrishöft hefðu ekki verið fyrir hendi að sögn fyrrverandi forstjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas, segir erfitt að fá hæft erlent …
Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas, segir erfitt að fá hæft erlent starfsfólk til landsins. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK