Mun borga sig upp á um tíu árum

Höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti í Reykjavík. mbl.is/Golli

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, segir að sjónarmið Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslu ríkisins, hvað varðar nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær, séu mjög eðlileg og í samræmi við hans hlutverk.

„Það er eðlilegt að Bankasýslan, sem framfylgir eigendahlutverki ríkisins, leggi áherslu á að því verði fylgt fast eftir, að kostnaðaráætlanir standist. Það mun bankaráðið gera,“ sagði Tryggvi í samtali við Morgunblaðið í gær.

Tryggvi var spurður hvort ekki hefði verið eðlilegt að halda hluthafafund um ákvörðun bankaráðsins um nýjar höfuðstöðvar: „Ég gerði grein fyrir málinu á síðasta aðalfundi Landsbankans og sagði jafnframt að það yrði kynnt frekar, þegar það væri fullunnið. Þetta var samhljóða ákvörðun bankaráðsins eftir margra ára umræður,“ sagði Tryggvi.

Þurfum að ná meira hagræði

Tryggvi segir að ákvörðun um byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans sé nauðsynlegur hluti af stefnu bankans að lækka rekstrarkostnað.

„Við höfum verið að fækka útibúum og það er kominn tími til þess að ná meira hagræði í þessari miðlægu starfsemi bankans. Í þeim einingum sem á að sameina í þessu húsi erum við að nota 28 þúsund fermetra. Við þurfum ekki nema um helming af því húsnæði, miðað við það rekstrarhagræði sem við ætlum að ná á næstu árum, eða um 14 þúsund fermetra. Það væri hrein sóun að halda áfram rekstrinum á 14 þúsund fleiri fermetrum en bankinn þarf á að halda fyrir höfuðstöðvar,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi segir að utanaðkomandi aðilar hafi verið fengnir til þess að meta arðsemisáætlanir stjórnenda bankans. „Við teljum að við munum ná að lækka árlegan rekstrarkostnað um 700 milljónir króna á ári með nýjum höfuðstöðvum og ná aftur fjárfestingunni á 10 árum. Það væri mikill ábyrgðarhluti að fara ekki í þessa framkvæmd,“ sagði Tryggvi.

Hann segir að bankaráð Landsbankans muni fylgjast mjög grannt með því, þegar samkeppni er lokið um nýja húsið og ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarhlutverk gamla hússins, að áætlanir standist og menn fari ekki fram úr kostnaði.

Aðspurður hvort nauðsynlegt hafi verið að ráðast í þessi lóðarkaup við Austurhöfn, á dýrasta stað í bænum, sagði Tryggvi:

„Því fer fjarri að þetta sé dýrasta lóðin í bænum. Hver fermetri kostaði 58 þúsund krónur. Auk þess fengum við grunninn þegar grafinn og gatnagerðargjöldin voru greidd.

Reyndar hafa ýmsir viljað losna við misjafnlega seljanlegar eignir og byggja fyrir okkur nýjar höfuðstöðvar á hinum og þessum stöðum, eins og fram hefur komið. Sumir hafa sagt að við getum selt lóðina við Austurhöfn miklu dýrar en við keyptum hana á og þess vegna eigi að selja hana. Staðhæfingar sem þessar staðfesta að við gerðum góð kaup í þessari lóð,“ sagði Tryggvi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK