Ferðaþjónustan enn stærsta útflutningsgreinin

Það má t.d. spyrja sig hvort að tekjur Bláa lónsins …
Það má t.d. spyrja sig hvort að tekjur Bláa lónsins séu ferðaþjónustutekjur, heilsutengdar tekjur eða tekjur fyrir baðstað. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ferðaþjónustan er enn sú atvinnugrein sem skapar mestar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið. Nýlegur ferðaþjónustureikningur frá Hagstofunni breytir þar engu um, enda er þar verið að notast við þrengri skilgreiningu á tekjum greinarinnar en t.d. Landsbankinn og ferðaþjónustan hafa gert. Meðal annars er ekki tekið mið af tekjum íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja erlendis. Þetta segir Gústaf Steingrímsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, en bankinn hefur gefið út skýrslur um ferðaþjónustuna undanfarin ár.

Segir tekjurnar ofmetnar um 100 milljarða

Í síðustu viku gaf Hagstofan út ferðaþjónustureikninga að nýju og spanna þeir árin 2009-2013. Samkvæmt greiningu Landsbankans var árið 2013 það ár þar sem ferðaþjónustan tók fram úr sjávarútvegi og stóriðju sem stærsta útflutningsgreinin. Í tölum Hagstofunnar er aftur á móti ekki verið að reikna út útflutningsverðmæti greinarinnar, heldur hversu stórt hlutfall af vergri landsframleiðslu greinin sé. Kemur þar fram að hlutfallið hafi verið 3,6% árið 2009 en farið í 4,6% árið 2013.

Þetta eru nokkuð lægri tölur en áður höfðu komið fram, en út frá þessum útreikningum hafði Rúv eftir Edward H. Huijbens, forstöðumanni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, að útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar væri ofmetið um allt að 100 milljarða króna. Þar af leiðandi væri ferðaþjónustan ekki stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, mælt í útflutningstekjum.

Bera saman epli og appelsínur

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur í sama streng og Gústav og segir þarna sé verið að bera saman epli og appelsínur. Segir hún að Hagstofan, í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð ferðamála, hafi notað nýja aðferðafræði í sínum útreikningum sem hafi komið ferðaþjónustuaðilum í opna skjöldu. Hafa samtökin óskað eftir fundi með Hagstofunni þar sem betur verður farið yfir tölurnar og það sem liggur á bak við útreikningana. „Ég átta mig ekki á hvað þeir eru að fara þarna,“ segir Helga um ummælin.

Hagstofan telur ekki með tekjur erlendis

Gústav segir að tekjur greinarinnar séu samansettar úr tveimur aðalliðum. Þetta sé eyðsla ferðamanna hér á landi og svo tekjur vegna farþegaflutninga íslenskra fyrirtækja erlendis. Undir seinni liðinn eru t.d. tekjur fyrirtækjanna Atlanta, Icelandair og Primera erlendis og tekjur vegna ferðamanna sem fljúga með Icelandair milli Ameríku og Evrópu en fara ekkert lengra en inn í flugstöðina.

Gústav segir að Edward virðist bara horfa á fyrri liðinn í þessari jöfnu og það sé annar mælikvarði en Landsbankinn hafi notast við. „Við höfum viljað halda þessari tölu á lofti og talið hana mjög mikilvæga. Þetta er sá gjaldeyrir sem kemur inn í landi og hefur mikil óbein áhrif, t.d. á lægri verðbólgu og styrkingu krónunnar,“ segir hann. Hann bætir við að þetta séu allt klárlega tekjur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Ferðaþjónustan enn stærsta útflutningsgreinin

Árið 2013 voru útflutningstekjur ferðaþjónustunnar metnar á 278 milljarða meðan útflutningstekjur sjávarútvegsins voru metnar á 273 milljarða. Stóriðjan var á sama tíma með 235 milljarða. Samkvæmt útreikningum Landsbankans var þetta fyrsta árið sem ferðaþjónustan tók fram úr hinum greinunum tveimur sem um áratugaskeið voru stoðir íslensks útflutnings. Gústav segir að nýbirtir reikningar Hagstofunnar breyti þar engu um, enda sé þar helst verið að mæla hlutfall ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu eins og Hagstofan og rannsóknarmiðstöðin vilja reikna það, en ekki stærð útflutningstekna.

Tölur Hagstofunnar ná bara til ársins 2013, en síðan þá hefur ferðamönnum fjölgað mikið og tekjum vegna þeirra samhliða því. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fjölgaði erlendum ferðamönnum til landsins um 23,6% í fyrra og í spá Landsbankans frá því í júní er því spáð að ferðamenn á þessu ári fjölgi viðlíka mikið og í fyrra.

Hægt er að reikna útflutningstekjur vegna ferðaþjónustunnar á mismunandi hátt …
Hægt er að reikna útflutningstekjur vegna ferðaþjónustunnar á mismunandi hátt og engin ein er alveg rétt. Gústaf segir aftur á móti að sú aðferð sem bankinn noti gefi réttari mynd af stöðu mála. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK