Síminn hringdur inn í Kauphöllina

Orri Hauksson hringir Símann inn í Kauphöllinna.
Orri Hauksson hringir Símann inn í Kauphöllinna. mbl.is/Golli

Orri Hauksson, forstjóri Símans, hringdi inn fyrstu viðskipti með bréf félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í morgun. Blásið var til skráningarathafnar í húsakynnum fyrirtækisins.

Í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Símans en félagið er það sjötugasta sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic á árinu 2015.

Líkt og fram hefur komið var gengi í verðfrjálsum hluta frumútboðs 3,4 krónur á hlut. IFS greining bendir á að athyglisvert sé að hlutabréf í Fjarskiptum hf. hafa hækkað jafnt og þétt frá 5. október, þegar útboð Símans hófst, eða samtals um 6,8%. „Má því segja að bréf Fjarskipta hafi orðið æ traustari grunnur fyrir upphaf viðskipta með bréf Símans – og hentar það eflaust mörgum,“ segir IFS.

Síminn er stærsta fjarskiptafélagið á Íslandi með um 820 starfsmenn og á rætur sínar að rekja til ársins 1906. Félagið á að fullu sex dótturfélög sem eru Míla, Sensa, Staki, On-Waves, Talenta og Radíómiðun. Starfa þau öll í kjarnastarfsemi Símans sem er fjarskipti, fjölmiðlun og upplýsingatækni, bæði á Íslandi og erlendis.

Viðskiptavinir eru um 115 þúsund talsins, þar af eru um 88% einstaklingar, en til þeirra má rekja um 48% af tekjunum.

Orri Hauksson, forstjóri Símans og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar við …
Orri Hauksson, forstjóri Símans og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar við skráningarathöfn Símans í morgun. mbl.is/Golli

Ánægjulegar viðtökur

„Skráning Símans á Aðalmarkað Nasdaq Iceland er mjög mikilvægt skref fyrir félagið og fjárfesta. Það var því afar ánægjulegt að sjá góðu viðtökurnar við útboðinu á hlutabréfunum og þá tiltrú sem fjárfestar sýndu félaginu,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.

„Sem fyrr erum við hjá Símanum ákveðin í að halda áfram að gera okkar allra besta fyrir viðskiptavini okkar, hluthafa og nýja fjárfesta á hörðum samkeppnismarkaði og þannig viðhalda því trausti sem okkur hefur verið sýnt.“

„Við bjóðum Símann hf. innilega velkominn á Aðalmarkaðinn,“ er þá haft eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland. „Síminn er sannarlega góð viðbót við hlutabréfamarkaðinn og styrkir bæði fjarskiptageirann á honum sem og markaðinn í heild sinni. Við hlökkum til að styðja við félagið með þeim aukna sýnileika sem fylgir skráningu á Aðalmarkað.“

Aðalmarkaðir og Nasdaq First North á Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

Fjölmenni var á skráningarathöfn Símans.
Fjölmenni var á skráningarathöfn Símans. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK