Pundið óstöðugra en bitcoin

Bitcoinmyntir.
Bitcoinmyntir. AFP

Gengi breska sterlingspundsins hefur sveiflast mikið eftir að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði að segja skilið við Evrópusambandið. Nú er svo komið að pundið er orðið óstöðugra en rafræni gjaldmiðillinn bitcoin.

Bitcoin hefur lengi verið þekkt sem óstöðugasti gjaldmiðill í heimi en gengi þess hefur sem dæmi sveiflast frá 2 dölum til 1.137 dala á undanförnum fimm árum. Nú eru hins vegar vísbendingar um að margir Bretar hafi seinustu daga og vikur keypt bitcoin til þess að verja sig fyrir miklum gengissveiflum breska pundsins.

Breski fjölmiðillinn Independent fjallar um málið, en hann bendir á að í síðustu viku hafi tíu daga flökt á gengi bitcoin mælst minna en flökt breska sterlingspundsins á sama tímabili.

Gengi pundsins hríðféll, eins og kunnugt er, þegar ljóst varð að Bretar hefðu samþykkt að yfirgefa Evrópusambandið. Gengið hefur verið mjög óstöðugt alla tíð síðan og hefur greinendum reynst erfitt að spá fyrir um þróun þess.

Á sama tíma hefur gengi bitcoin haldist nokkuð stöðugt.

Fjölmargir hafa verslað með þennan rafræna gjaldmiðil á undanförnum vikum en í frétt Independent segir að velta með gjaldmiðilinn hafi meira en tvöfaldast í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór 23. júní. Bretar hafi verið sérstaklega duglegir við að nota gjaldmiðilinn.

Lengi hefur verið litið á bitcoin sem óstöðugstu mynt í heimi. Gengi gjaldmiðilsins hefur hækkað og lækkað um tugi prósenta á jafnvel einum degi. Hvert bitco­in kostaði nokk­ur sent fyr­ir fimm árum en fyr­ir tveim­ur árum fór gengið upp í eitt þúsund dali, svo dæmi sé tekið.

Gengið var sérstaklega óstöðugt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og lækkaði til að mynda skarpt daginn fyrir. Það hækkaði þó á nýjan leik þegar úrslitin lágu fyrir og hefur haldist nokkuð stöðugt síðan, ólíkt pundinu, sem hefur hríðfallið í verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK