Feðgar opna ísbúð á Rauðarárstíg

Ísinn verður búinn til á staðnum og þá ætla félagarnir …
Ísinn verður búinn til á staðnum og þá ætla félagarnir að vera fyrstir á Íslandi til þess að vera með almennilegt íspinnaúrval. Ljósmynd/Aðsend

Þrír ættliðir standa á bak við ísbúðina Herdísi sem opnar á næstunni við Rauðarárstíg. Um er að ræða gelato- og sorbetto-ís í hinum ýmsum útgáfum en búðin er nefnd eftir ættmóðurinni, þ.e. eiginkonu eigandans og móður og ömmu hinna tveggja, en hún lést langt fyrir aldur fram.

Eigandi Herdísar er Friðrik Björnsson, en þá er sonur hans, Ásgeir Herdísarson, framleiðslustjóri en hann stundaði nám við einn virtasta ísskóla Ítalíu ásamt því að hafa verið að selja ís hér á landi á árum áður. Þá er hinn yngsti, Friðrik Ásgeirsson, barnabarn Friðriks og sonur Ásgeirs, titlaður tækjameistari.

Bjóða upp á sykurlaust, vegan og laktósafrítt

Í samtali við mbl.is segir Ásgeir að boðið verði upp á sem flestar tegundir af ís í Herdísi til þess að koma til móts við sem flesta. Ætla þeir að reyna að bjóða almennt upp á eitthvað sykurlaust, vegan og laktósafrítt. Hann segir að flestar vörurnar séu glútenlausar og standist allar gæðakröfur.

„Einnig verðum við eitthvað að fikta við jógúrt ís og soja-ís að ógleymdum svokölluðum soft-gelato sem við vitum ekki til að hafi verið í boði hérlendis áður,“ segir Ásgeir. Ísinn verður búinn til á staðnum og þá ætla félagarnir að vera fyrstir á Íslandi til þess að vera með almennilegt íspinnaúrval.

Að sögn Ásgeirs er stefnt að því að opna um leið og mögulegt er. „Við erum að fara í gegnum úttektarferlið núna þannig að það fer að styttast alvarlega í þetta,“ segir hann og bætir við að opnunin verði tilkynnt á Facebook-síðu Herdísar sem fyrst.

Ásgeir segir að boðið verði upp á sem flestar tegundir …
Ásgeir segir að boðið verði upp á sem flestar tegundir af ís í Herdísi til þess að koma til móts við sem flesta. Ætla þeir að reyna að bjóða almennt upp á eitthvað sykurlaust, vegan og laktósafrítt. Hann segir að flestar vörurnar séu glútenlausar og standist allar gæðakröfur. Ljósmynd/Aðsend

Spurðir um opnun á hverjum degi

Eins og fyrr segir stendur búðin á Rauðarárstíg, þar sem söluturninn Draumurinn var eitt sinn til húsa. „Við duttum eiginlega óvart um þetta húsnæði í einum af fjölmörgum bíltúrum sem við þurftum að þrauka til að finna þetta fína húsnæði,“ segir Ásgeir. „Við vorum ansi heppin að komast þar inn því aðrar áætlanir voru með þetta húsnæði en eigandanum leist svo vel á hugmynd okkar að hann hætti við sitt og hleypti okkur inn.“

Hann segist búast við því að þetta svæði muni breytast ansi mikið á næstu árum og nefnir aukna íbúabyggð og ferðamannastraum í því samhengi.

Þrátt fyrir að vera ekki búin að opna er Herdís komin með 3.460 fylgjendur á Facebook og segir Ásgeir viðbrögðin með eindæmum frábær.

Ljósmynd/Aðsend

„Í raun höfum við ekki farið í gegnum einn dag frá því í vor án þess að fólk sé að spyrja um opnunardag og er sú pressa orðin ansi mikil. Við vonum bara að sem flestir fyrirgefi okkur hve seint við opnum miðað við áætlanirnar sem við vorum farin að tilkynna,“ segir Ásgeir.

Íslendingar með einstakan áhuga á ís

Spurður hvað komi til að þeir ákváðu að opna ísbúð segir Ásgeir Íslendinga með einstakan áhuga á ís miðað við það veðurfar sem ríkir hér. Þá segir hann að það eigi enn eftir að kynna fyrir íslendingum eitt og annað varðandi ís.

„Í raun varð þessi hugmynd svolítið til fyrir slysni í matarboði fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þá var einn okkar að velta sér upp úr tækifærum markaðarins á þeim tíma og fannst þetta vel viðeigandi því þarna gátum við með sóma heiðrað minningu mömmu, hennar Herdísar,“ segir Ásgeir. „Hún yfirgaf þennan heim langt fyrir aldur fram og er enn sárt saknað. Hún var alveg einstök.“

Búðin stendur við Rauðarárstíg.
Búðin stendur við Rauðarárstíg. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK