Deutche Bank lækkar um 8%

Deutsche Bank
Deutsche Bank AFP

Hlutabréf Deutsche Bank lækkuðu um 8% við opnun hlutabréfamarkaðar í Frankfurt í morgun. Ástæðan er sú að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur krafið þýska bankann um 14 milljarða Bandaríkjadala, 1.609 miljarða króna, í tengslum við rannsókn á verðbréfaútgáfu bankans.

Í tilkynningu frá bankanum segir að ekki komi til greina að greiða svo háa fjárhæð, hvorki í þessu máli né öðrum. Ef bankinn greiðir sektina þá kemst hann hjá því að málið fari fyrir dóm en um stjórnvaldssátt er að ræða. 

Talið er að viðræður milli bandarískra yfirvalda og bankans eigi eftir að standa í marga mánuði áður en samkomulag næst en sektin er miklu hærri en gert var ráð fyrir.

Í tilkynningu Deutsche Bank kemur fram að viðræður séu nýafnar og bankinn telji að niðurstaðan verði í samræmi við það sem aðrir bankar hafa komist að samkomulagi við bandaríska ríkið að greiða.

Um er að ræða verðtryggð skuldabréf sem áttu stóran hlut í upphafi fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008. Bandarískir bankar hafa einnig verið til rannsóknar og sakaðir um að hafa veitt óhæfum lántakendum verðtryggð lán þrátt fyrir að ljóst hafi verið frá upphafi að þeir voru ófærir um að greiða þau til baka. Lánin voru síðan sett í skuldabréfavafninga sem seldir voru áfram. Áhættan af láninu fluttist því yfir á aðra en bankann sjálfan. 

Ef sektin stendur þá er þetta ein stærsta sekt sem bandarísk yfirvöld hafa lagt á í kjölfar fjármálakreppunnar. 

Dómsmálaráðuneytið krafði Citigroup um 12 milljarða dala árið 2014 fyrir svipaða fjármálagerninga en sektin endaði í 7 milljörðum dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK