Úr tveimur í fimmtán á fimm árum

Hjá Tjarnargötunni er valinn starfsmaður í hverju horni, allt frá …
Hjá Tjarnargötunni er valinn starfsmaður í hverju horni, allt frá hugmyndavinnu, handritsgerð yfir í framleiðslu, leikstjórn, tökur, streymi og eftirvinnslu. Ljósmynd/M. Flóvent

Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan var stofnað eftir að þeir Arnar Helgi Hlynsson og Einar Benedikt Sigurðsson, ávallt kallaður Einar Ben, byrjuðu að leigja saman íbúð á Tjarnargötunni árið 2011. Nú, fimm árum eftir að fyrirtækið var stofnað í stofu sömu íbúðar, er Tjarnargatan margverðlaunað skapandi framleiðslufyrirtæki og starfa þar fimmtán manns.

„Við kynntumst lauslega þegar við stunduðum báðir framhaldsnám í London segir Arnar í samtali við mbl.is „En við vorum einfaldlega svo ólíkir að samskipti okkar voru lítil sem engin meðan við dvöldum í London. Það var ekki fyrr en við byrjuðum að leigja saman að tengsl okkar þróuðust í vináttu sem á skotstundu varð að reglulega góðum viðskiptum,“ segir Einar.

Þeir Einar Ben og Arnar Helgi stofnuðu Tjarnargötuna árið 2011.
Þeir Einar Ben og Arnar Helgi stofnuðu Tjarnargötuna árið 2011. mbl.is/Árni Sæberg

Stefndu á sömu mið

Grunnurinn að fyrirtækinu var lagður þegar Einar starfaði í markaðsdeild Símans, meðan Arnar sat hinumegin við sama borð og starfaði með hinum ýmsu framleiðslufyrirtækjum við gerð auglýsinga og annars myndefnis fyrir mörg af helstu vörumerkjum landsins.

„Það má í raun segja að við höfum frá upphafi stefnt á sömu mið og sannarlega starfað innan sama geirans, nema á sitthvorum endanum án þess að raunverulega átta okkur á því,“ segir Arnar.

Einar segir kröfuna um meira myndefni, hraðari afköst og frjórri hugsun sem hann tók eftir í starfi sínu hjá Símanum hafa verið neistann sem kveikti bálið. „Forsenda fyrir því að myndefni geri sitt gagn er að það sé „körrent” og í takt við tíðarandann hverju sinni,“ segir Einar.

Fyrir árið 2011 var lenskan sú að það kostaði einfaldlega háar upphæðar að ræsa út teymi í upptöku á myndefni og auglýsingum.  Fyrirtæki fóru mun sjaldnar í framleiðslu og var hver auglýsing því oftar en ekki látin lifa allt of lengi. Okkar pæling var frá upphafi að koma inn á markaðinn með hagstæðara verð, hreyfa okkur hraðar og vera frá fyrsta degi sveigjanlegir, þar sem við veðjuðum á aukningu á þörf eftir góðu myndefni á samkeppnishæfu verði,“ bætir Arnar við.

Þeir benda á að frá árinu 2011 hafi notkun myndefnis á netinu stórlega aukist og er talið að allt að 90% af allri netumferð á næstu árum verði tilkomin vegna áhorfs á hin ýmsu myndbönd og auglýsingar.

Meiri kraft per krónu

Tjarnargatan hefur frá upphafi starfað eftir þremur gildum, sem finna má í slagorði fyrirtækisins, Hugmynd, framkvæmd, framleiðsla.  Að sögn þeirra Einars og Arnars lýsa þessi þrjú orð öllu ferlinu hjá Tjarnargötunni

„Stundum fáum við á borð til okkar verkefni sem eru vel mótuð og okkar vinna er sú að koma því í framkvæmd, undirbúa allt og koma því í framleiðslu.  Hins vegar erum við oftar en ekki í því að greina tækifæri og vandamál fyrir fyrir vörumerki og fyrirtæki og finna tækifæri til að miðla upplýsingum eða útbúa skapandi auglýsingar.  Okkar dyr standa alltaf opnar, sama á hvaða stað verkefnið er,“ segir Arnar.

„Það er ekki hægt að koma fram við mismunandi snertifleti eins og þeir séu einn hinn sami.  Okkar upplegg hefur frá upphafi verið að tryggja að viðskiptavinurinn fái meiri kraft per krónu.  Okkar mannskapur tryggir að í hugmyndavinnu og framleiðslu sé sérstaklega hugsað út í hina ýmsu snertifleti,“ segir Einar.

„Þannig er ekki sjónvarpsauglýsing notuð sem „víral“ auglýsing, enda sitt hvor miðillinn sem kallar á öðruvísi markaðsefni svo dæmi séu tekinn. Með þessu móti er hægt að endurnota og hámarka nýtingu á því myndefni sem unnið er hverju sinni og besta þannig aurinn sem fer í framleiðslu.“

Starfsmenn Tjarnargötunnar við tökur á myndbandi fyrir Of Monsters and …
Starfsmenn Tjarnargötunnar við tökur á myndbandi fyrir Of Monsters and Men.

90% viðskiptanna beint af kúnni

Aðspurðir hvort það sé erfitt að þrífast á íslenskum auglýsingamarkaði segja þeir félagar ekki svo vera. Þeir segja að heilt yfir sé gott samstarf á milli ólíkra fyrirtækja á markaðnum þó að vitaskuld sé stundum keppst um verkefni.

„Staðreyndin er einfaldlega sú að yfir 90% af okkar viðskiptum kemur beint af kúnni,“ segir Einar og vísar til þess að meirihluti viðskipta Tjarnargötunar komi beint frá fyrirtækjum og stofnunum, en ekki frá auglýsingastofunum.

„Við höfum að okkar mati skapað okkur ákveðna sérstöðu.  Við erum „allt í einni ferð“ fyrirtæki. Hvort sem það er fyrir auglýsingastofur, vefstofur, fyrirtæki eða forstjóra. Ef viðkomandi vill koma upplýsingum áleiðis í öðru formi en í prenti, getur sá hinn sami leitað til okkar án þess að flækja verkefnið um of,“ segir Einar.

Hjá Tjarnargötunni er valinn starfsmaður í hverju horni, allt frá hugmyndavinnu, handritsgerð yfir í framleiðslu, leikstjórn, tökur, streymi og eftirvinnslu.

Grunnurinn felst í starfsfólkinu

Sem fyrr segir hefur Tjarnargötunni vaxið fiskur um hrygg, hratt en örugglega.  Fyrirtækið hefur stimplaði sig inn sem leiðandi aðila á markaðnum með tilnefningum sem og verðlaunum til Íslensku vefverðlaunanna (SVEF) og Íslensku auglýsingaverðlaunanna (Ímark) frá því að það var stofnað.

Jafnframt hefur Tjarnargatan nú nýlega fengið tilnefningu til Alþjóðlegra verðlauna á borð við European Exellence Awards, Digiday Awards í New York sem og að vinna til hinna virtu Digital Comuncation Awards í Berlín sem „Nýsköpun ársins“ og „Besta almannaheillaherferðin“ sem og að safna upp ófáum tilnefningum og verðlaunum í Noregi fyrir endurgerð á Höldum Fókus-herferðinni.

„Það hefur auðvitað ekki verið án vandkvæða sem við höfum stækkað frá því að vera tveir árið 2011 yfir í að vera 15 árið 2016, en það er sá fjöldi sem við höfum haldið okkur í núna í nær tvö ár,“ segir Arnar. „Grunnurinn að öllu okkar starfi og velgengni felst í því góða starfsfólki sem við höfum hjá okkur.  Við erum reglulega stoltir af okkar fólki og teljum okkur hafa náð saman einstökum hópi. Við vinnum öll saman að því að gera okkar besta, í öllum verkefnum,“ segir Einar.

Fjórum sinnum á ári tekur Tjarnargatan saman yfirlit yfir verkefni síðustu vikna. Hér má sjá eina þannig samantekt:

Viðsnúningur í rekstrinum

Síðasta ár var fyrsta rekstrarár Tjarnargötunnar sem kom út í plús og gera þeir Arnar og Einar ráð fyrir því að þetta ár verði með mjög svipuðu sniði.  Mikill viðsnúningur varð í afkomu fyrirtækisins á síðasta ári þar sem tekjurnar voru 167,8 milljónir og jukust um rúmlega 50 milljónir milli ára. Hreinn hagnaður félagsins nam 18,1 milljón króna miðað við 16 milljóna tap árið 2014.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á undanförnum árum og segja þeir Arnar og Einar að ákveðin hugarfarsbreyting hafi átt sér stað fyrir um tveimur árum, þegar farið var í umfangsmikla yfirhalningu á fyrirtækinu með lögmannstofunni LEX en þá voru öll gögn, hugverkaréttindi, starfssamningar og skipulag sett í ákveðið form. Segja þeir Arnar og Einar þetta hafa auðveldað Tjarnargötunni aðgang inn á erlendan markað, þar sem nauðsynlegt hafi verið að sýna fram á tryggingu og öryggi þeirra upplýsinga sem unnið var með í stærri verkefnum sem og rekstrarlegan stöðugleika fyrirtækisins.

„Við fengum svo nýlega inn einn af helstu áhrifavöldum í markaðsmálum í Noregi í stjórn félagsins, hann Nils Petter Nordskar.  Hann ásamt tveimur öðrum utanaðkomandi aðilum mun rýna til gagns í rekstur, hjálpa okkur að móta næstu skref og aðstoða okkur við að sækja frekari verkefni hérlendis og erlendis,“ segir Einar.

Þeir segja báðir að liður í því að stækka og vaxa enn frekar hafi verið að deila ábyrgð og
hafi því verið brugðið á það ráð að samþykkja kaup þeirra Daníels Oddssonar og Freys Árnasonar hvors á sínum 5% hlut í fyrirtækinu. Þeir hafa undanfarin fjögur ár skipað veigamikinn þátt í uppvexti fyrirtækisins og segja þeir Arnar og Einar möguleika á að fleiri starfsmenn muni kaupa sig inn í reksturinn á næstu árum.

Freyr og Daníel keyptu hvor sinn 5% hlutinn í fyrirtækinu.
Freyr og Daníel keyptu hvor sinn 5% hlutinn í fyrirtækinu.

Bransinn strembinn, en fyrst og fremst skemmtilegur

Undanfarið ár hefur Tjarnargatan verið að móta nýja nálgun á framleiðslu á myndefni og auglýsingum fyrir fyrirtæki. En þar vísa þeir Arnar og Einar í svokallaða „framleiðslusamninga” sem þeir nú bjóða upp á.

„Við höfum verið með þrjú fyrirtæki til reynslu í föstum samningum, þar sem við sinnum allri framleiðslu fyrir viðkomandi.  Allt frá því að taka upp stutt viðtöl, gera vörumyndbönd fyrir hin ýmsu lönd yfir í að skjóta alhliða auglýsingar,“ segir Einar.

„Þetta er hugsað þannig að viðkomandi fyrirtæki „eignist“ í raun sitt eigið framleiðsluteymi sem er vakið og sofið yfir því sem er að gerast á markaðnum og taki virkan þátt í að finna tækifæri til að skapa góðar sögur.“

Spurðir hvort erfitt sé að vinna í síbreytilegu landslagi segja þeir Einar og Arnar svo ekki vera. Segja þeir bransann geta svo sannarlega verið strembinn, en fyrst og fremst skemmtilegan.

„Við höfum frá upphafi alltaf reynt að tileinka okkur nýjungar inn í okkar hugmyndarvinnu.  Við höfum t.d. verið fyrstir hér á landi til að innleiða Facebook-gögn og -myndir inn í auglýsingaherferð, fyrstir til að para saman snjallsíma og auglýsingu í rauntíma sem og að reyna stanslaust á þolmörk hefðbundins markaðsstarfs með myndefni, gagnvirkni og innleiðingu net- og samfélagsmiðla,“ segir Einar.

Segir Einar því að nauðsynlegt sé að verja tíma og peningum í að fjárfesta í tækni og uppfærslu á búnaði. Tjarnargatan hefur á undanförnu fjárfest á þriðja tug milljóna í nýjan búnað, tæki og tól.

„Þegar fyrirtæki fjárfesta í söfnun á myndefni skiptir vitanlega öllu máli að það efni sé bæði aðgengilegt og í besta mögulegu gæðum,“ segir Arnar og nefnir að allt efni sem Tjarnargatan vinni sé skotið að lágmarki með fjórfaldri háskerpu.

Spurðir um framhaldið segjast þeir félagar horfa með tilhlökkun á næsta ár en þegar eru verkefni að hlaðast upp fyrir fyrstu tvo fjórðunga ársins.

Starfsmenn Tjarnargötunnar á vettvangi.
Starfsmenn Tjarnargötunnar á vettvangi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK