Höldum Fókus keppir við Adidas

Höldum Fókus 2 sýndi fjóra vinsæla „Snappara“ lenda í sviðsettum …
Höldum Fókus 2 sýndi fjóra vinsæla „Snappara“ lenda í sviðsettum bílslysum.

Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan er tilnefnt til Digiday-verðlaunanna sem afhent verða í Lundúnum í næsta mánuði. Tjarnargatan er tilnefnd fyrir herferðina Höldum Fókus 2 sem vakti mikla athygli á síðasta ári.  

Herferðin er tilnefnd í flokknum besta auglýsing / herferð á samfélagsmiðlum eða „Best Social Video Campaign“. Einar Benedikt Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar, segir tilnefninguna mikinn heiður en aðrir sem tilnefndir eru í sama flokki eru til að mynda íþróttaframleiðandinn Adidas og breska fréttastofan News UK. Adidas er reyndar með tvær tilnefningar, fyrir herferðirnar „Boss Everyone“ og „We Are Social“ þar sem knattspyrnustjarnan Paul Pogba og rapparinn Stormzy koma við sögu.

Einar segir áhorfin á þessar herferðir hlaupa á milljónum og því mjög gaman að keppa við þessa risa.

Myndbönd úr herferðum Adidas má sjá hér að neðan. 

Fylgdust með bílslysum í beinni

Í Höldum Fókus 2 mátti sjá þekkt íslensk ungmenni  lenda í bílslysi í gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat. Ekki var þó um alvörubílslys að ræða en átakinu er beint gegn þeirri iðju einstakra ökumanna að taka upp og skoða Snapchat meðan á akstri stendur. Hátt í 30 þúsund fylgdust með, þar af 21 þúsund með ljósmyndaranum Snorra Björnssyni lenda í leiknu bílslysi. Þar að auki voru það þau Emm­sjé Gauti, Mar­grét Erla Maack og Berg­lind Festi­val sem tóku þátt.

Að sögn Einars eru Digiday-verðlaunin með þeim stærri í Evrópu þegar kemur að stafrænum auglýsingum og Tjarnargatan ákvað að senda Höldum Fókus 2 inn í keppnina. „Þeir eru að segja að þátttakan í ár sé meiri en undanfarin ár. Það sýnir það að fyrirtæki eru sífellt meira að nota stafrænar auglýsingar.“

Einar segir verðlaunin veitt þeim verkefnum og fyrirtækjum sem þykja vekja innblástur og skara fram úr á sviði stafræns markaðsefnis. Önnur fyrirtæki sem eru tilnefnd eru risar á borð við L‘Oreal, Samsung, Telia og Jeep.

Arnar Helgi og Einar Ben eru stofnendur Tjarnargötunnar.
Arnar Helgi og Einar Ben eru stofnendur Tjarnargötunnar. mynd/Tjarnargatan

Höldum Fókus 3 á leiðinni

Síminn og Samgöngustofa fóru af stað með Höldum Fókus-herferðina sumarið 2013 en hugmyndavinna og framleiðsla hefur alltaf verið í höndum Tjarnargötunnar. Átakinu var ætlað að vara öku­menn við því að nota síma sinn meðan á akstri stend­ur. Höldum Fókus 2 lagði síðan áherslu á Snapchat-notkun undir stýri og segir Einar nú verið að vinna að Höldum Fókus 3.

„Við ætlum að halda áfram að byggja á þessum góða grunni. Höldum Fókus 1 vakti mikla athygli bæði hér og erlendis og vann mörg verðlaun og Höldum Fókus 2 vann íslensku auglýsingaverðlaunin í ár. Núna ætlum við aðeins að breyta til og stækka verkefnið. Það munu fleiri koma að þessu og við ætlum að stækka þetta og nota nýja miðla og nýjar leiðir.“

Aðspurður hvort hann telji að skilaboðin eigi ekki enn við, fjórum árum eftir að fyrsta Höldum Fókus-herferðin fór í loftið, segir Einar það alveg á hreinu. „Þetta er vandamál sem er bara að aukast, því miður.“

Hér að neðan má sjá samantekt um Höldum Fókus 2. Hægt er að sjá öll myndböndin á Youtube-rás Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK