Bannið hefði mikil áhrif hér

Verið er að skoða hvort rétt sé að setja bann …
Verið er að skoða hvort rétt sé að setja bann við því að vera með fartölvur og spjaldtölvur í farþegaflugi milli Evrópu og Bandaríkjanna. AFP

Fréttir um mögulegt bann á fartölvum og spjaldtölvum um borð í flugvélum sem fljúga á milli Bandaríkjanna og Evrópu hefur vakið mikinn ugg meðal framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Íslensku flugfélögin og Isavia fylgjast grannt með málinu enda hefði þetta mikil áhrif hér sem víðar.

Háttsettir embættismenn í bandaríska heimavarnarráðuneytinu og hjá framkvæmdastjórn ESB munu halda símafund um málið síðar í dag en fulltrúar bandarískra flugfélaga voru boðaðir á fund ráðuneytisins í gær þar sem rætt var um að víkka út bann sem hefur verið í gildi frá því í mars hvað varðar flug á milli Bandaríkjanna og Miðausturlanda, Tyrklands og Norður-Afríku. Bannið, sem nær til stærri rafmagnstækja um borð í farþegarými, nær til átta ríkja. Bretar fylgdu í kjölfarið og settu slíkt bann á flug til sex ríkja.

Bannið gildir þegar um farþegaflug milli Bretlands og sex ríkja …
Bannið gildir þegar um farþegaflug milli Bretlands og sex ríkja í Miðausturlöndum og N-Afríku. AFP

Anna-Kaisa Itkonen, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, segir að framkvæmdastjórnin vilji fylgjast með þeim hugmyndum sem uppi eru hjá bandarískum yfirvöldum svo mögulegt sé að deila þeim upplýsingum til aðildarríkja ESB. 

Bandaríska heimavarnarráðuneytið bannaði tölvur og raftæki stærri en snjallsíma í farþegarými flugvéla í beinu flugi milli Bandaríkjanna og tíu flugvalla í átta ríkjum. 

Gunnar K. Sigurðsson, hjá Isavia, segir að Isavia fylgist með þessum hugmyndum og til skoðunar er hvaða áhrif slíkt bann gæti haft.

Isavia undirbýr viðbragðsáætlun sem hægt væri að virkja ef slíkt raftækjabann yrði sett á flug milli Bandaríkjanna og Íslands. Hann segir erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta hefði á starfsemi á Keflavíkurflugvelli, enda litlar upplýsingar fyrirliggjandi, en það er eitt að því sem verið er að skoða.

Þetta gæti þýtt að fáir gætu ferðast án þess að …
Þetta gæti þýtt að fáir gætu ferðast án þess að innrita farangur. AFP

Guðjón Argrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að fylgst sé með þessu og verið sé að skoða hvaða áhrif slíkt bann gæti haft á starfsemi Icelandair.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, hefur svipaða sögu að segja en WOW air með viðbragðsáætlun tilbúna verði slíkt bann sett á í áætlunarflugi frá Íslandi til Bandaríkjanna. 

„Við munum upplýsa okkar farþega ef að þessu verður með tölvupóstum, smáskilaboðum, á heimasíðu félagsins og á samfélagsmiðlum okkar,“ segir Svanhvít.

Bandarísk yfirvöld segja að flugfélög sem fljúga á milli Bandaríkjanna og flugvalla í Evrópu hafi verið upplýst um að verið sé að skoða möguleikann á setningu slíks banns. Ef bannið verður að veruleika neyðast farþegar til þess að setja öll raftæki sem eru stærri en snjalltæki í innritaðan farangur og því erfiðara að ferðast aðeins með handfarangur fyrir þá sem eru í styttri ferðum þar sem nauðsynlegt er að hafa tölvur eða spjaldtölvur með í för. 

Bannið var sett á í mars vegna ótta um að hryðjuverkahópar væru að þróa sprengjur sem komið er fyrir sem rafhlöðum í raftæki. Sprengjan, sem sprengdi gat á flugvélaskrokk sómalískrar farþegaþotu í febrúar í fyrra, er talin hafa verið komið fyrir í fartölvu sem var um borð í farþegarýminu. Einn lést þegar sprengjan sprakk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK