Hafa brugðist við en eru enn í banni

Fidget Spinners eða þyrilsnældur.
Fidget Spinners eða þyrilsnældur. mbl.is/Golli

Innflytjendurnir þrír sem Neytendastofa setti í tímabundið bann við sölu og afhendingu á þyrilsnældum fyrir helgi hafa allir brugðist við og sent frá sér gögn til stofnunarinnar. Bannið er þó enn í gildi þar sem gögnin eru ekki enn nægileg. Innflytjendurnir voru settir í bann vegna skorts á merkingum og upplýsingum um vöruna.

Í samtali við mbl.is segir Helga Sigmundsdóttir, sérfræðingur hjá öryggissviði Neytendastofu, að lögin séu þannig að Neytendastofa hefur heimild til að setja tímabundið sölubann á vörur í fjórar vikur. „Við höfum síðan heimild til að framlengja bannið um aðrar fjórar vikur eða taka ákvörðum um endanlegt sölubann. Við sendum út bréf til innflytjendanna og óskuðum eftir gögnum sem sýna fram á öryggi vörunnar. Ef þeir gera það og öll tilskilin gögn berast og viðeigandi lagfæringar gerðar innan þessara fjögurra vikna verður tímabundnu sölubanni aflétt,“ segir Helga.

„Við höfum verið að fá einhver gögn frá öllum innflytjendunum en ekki nægileg. Bannið er því enn í gildi og málið í vinnslu.“ Að sögn Helgu er nú verið að yfirfæra gögnin og sjá hvað vantar upp á.

Vísað frá í tolli í Hollandi og Belgíu

Mörg hundruð þúsund ein­tök af þyrilsnældum hafa verið tek­in af markaði að und­an­förnu vítt og breitt á Evr­ópska efna­hags­svæðinu og vör­um einnig vísað frá í tolli í EES-ríkj­um. 

Nefnir Helga sem dæmi að Holland og Belgía hafi stoppað allar þyrilsnældur sem eru ekki CE-merktar í tolli en öll leikföng sem markaðssett eru hér á landi og á Evrópskra efnahagssvæðinu eiga að vera CE-merkt.

Helga bendir jafnframt á að þyrilsnældur séu almennt ekki með viðvörun um að leikfangið sé ekki ætlað börnum yngri en þriggja ára. „Það eru hringir í þyrilsnældunum sem geta losnað og dottið af en slíkir smáhlutir geta valdið köfnunarhættu ef börn setja þá upp í sig,“ segir Helga.

Hún segir að oft vanti líka upplýsingar um framleiðanda og vörunúmer. Neytendastofa hefur ekki upplýsingar um hversu mörg fyrirtæki hér á landi flytji inn þyrilsnældur.

„Við vonum að í framhaldinu af þessari umfjöllun muni þeir sem flytja inn vöruna ganga úr skugga um að varan sé CE-merkt og að allar merkingar og gögn séu til staðar. Það er á ábyrgð innflytjenda að öll tilskilin gögn séu fyrir hendi sem sýna fram á öryggi vörunnar,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK