Air Berlin getur engu svarað

AFP

Air Berlin getur ekki veitt neinar upplýsingar um framtíð einstakra flugleiða eins og sakir standa en félagið fór fram á greiðslustöðvun í gær. Flugfélagið hefur verið stórtækt í Íslandsflugi frá árinu 2006 en getur engu svarað um framtíð þeirra.

Greint er frá þessu á vef Túrista.is.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að þýska ríkið, Lufthansa og fleiri aðilar ætli að styðja rekstur félagsins næstu misseri og engar breytingar verði gerðar á flugáætluninni. Air Berlin flýgur til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá Berlín og Dusseldorf og starfrækir jafnframt sumarflug hingað frá Munchen og Vínarborg, í samstarfi við dótturfélagið FlyNiki. Í svari frá Airberlin í dag, við fyrirspurn Túrista, segir að ekki sé hægt að gefa neinar upplýsingar um framtíð einstakra flugleiða eins og sakir standa og það eigi líka við flugið til Íslands. 

Enn hægt að panta farmiða

Þar með fást ekki upplýsingar um hvort Airberlin muni halda Íslandsfluginu í vetur áfram en Túristi bendir á að hægt sé að panta farmiða með félaginu héðan til bæði Berlínar og Dusseldorf næstu mánuði. „Þeir sem eiga bókaða miða með Air Berlin eða íhuga að kaupa far verða að hafa í huga að samkvæmt evrópskum reglum þá bæta tryggingar ekki tjón vegna gjaldþrota flugfélaga,“ segir í fréttinni.

„Farþegar sem eiga ónotaða flugmiða geta hins vegar gert kröfu í þrotabú viðkomandi flugfélags og eins eru líkur á að kreditkortafyrirtæki geti endurgreitt miðaverðið. Öðru máli gegnir hins vegar um þá sem hafa keypt pakkaferð, t.d. hjá ferðaskrifstofu, því þá er ferðaskrifstofan ábyrg eins og lesa má á vef Samgöngustofu. Viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru líka betur settir ef rekstur flugfélags stöðvast á meðan viðkomandi er í útlöndum því þá skal ferðaskrifstofan koma farþeganum heim. Þeir sem aðeins hafa keypt flugmiða verða hins vegar að koma sér heim fyrir eigin reikning og svo gera kröfu í þrotabúið.“

Gæti verið tækifæri fyrir Icelandair

Túristi bendir á að auk Air Berlin þá flýgur WOW air einnig milli Íslands og höfuðborgar Þýskalands allt árið um kring. Fyrstu þrjá mánuði ársins þá nýttu 41% fleiri Íslendingar sér þessar áætlunarferðir en á sama tíma í fyrra. Í heildina fóru 2.389 Íslendingar til Berlínar á fyrsta ársfjórðungi og meira en helmingur þeirra var á ferðinni í mars þegar 40 Íslendingar á dag mættu til borgarinnar að jafnaði.

„Hlutfall íslenskra farþega í flugvélunum sem fljúga héðan til Berlínar er því ekki ýkja hátt og en það gæti þó verið tækifæri í því fyrir Icelandair að blanda sér á ný í baráttuna um farþega á leið milli Berlínar og Íslands en Icelandair flaug til Berlínar nokkur sumur á árunum fyrir hrun,“ segir í frétt Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK